Fótbolti

Fannst stemningin á Etihad stein­dauð

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Stuðningsmenn Manchester City voru daufir gegn Inter að mati Peters Schmeichel.
Stuðningsmenn Manchester City voru daufir gegn Inter að mati Peters Schmeichel. getty/Simon Stacpoole

Peter Schmeichel segir að andrúmsloftið á Etihad hafi ekki hjálpað Manchester City í leiknum gegn Inter í Meistaradeild Evrópu í gær. Hann sagði að engin stemmning hefði verið hjá stuðningsmönnum City.

Ekkert mark var skorað í leik City og Inter í Meistaradeildinni í gær. Leikurinn var frekar daufur og það sama má segja um stemmninguna á vellinum.

„Mér fannst þetta ekki gott jafntefli. Mér fannst þetta vera mjög leiðinlegur leikur. Það er leiðinlegt að segja það. Mér fannst Inter gera mjög vel í að stöðva City,“ sagði Schmeichel á CBS í gær.

„Ég er hrifinn af góðum fótbolta og stemmningu á vellinum. En þetta var dautt. Í dag [í gær] var Etihad steindauður. Eina fólkið sem heyrðist í voru stuðningsmenn Inter sem voru nokkuð góðir. En það var engin stemmning á Etihad í dag.“

Schmeichel er þekktastur fyrir að hafa varið mark Manchester United á árunum 1991-99 en lauk ferlinum með City tímabilið 2002-03.

City spilar aftur á heimavelli á sunnudaginn þegar Arsenal kemur í heimsókn í stórleik helgarinnar í ensku úrvalsdeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×