Sport

Jake Paul keppir í 135 milljóna króna stutt­buxum gegn Tyson

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jake Paul bíður spenntur eftir því að mæta Mike Tyson í hringnum.
Jake Paul bíður spenntur eftir því að mæta Mike Tyson í hringnum. getty/Cooper Neill

Samfélagsmiðlastjarnan Jake Paul ætlar að mæta til leiks í sínu fínasta pússi þegar hann berst gegn Mike Tyson í nóvember. Paul stefnir nefnilega að því að keppa í dýrustu stuttbuxum allra tíma.

Mikil eftirvænting ríkir fyrir bardaga þeirra Pauls og Tysons í Texas 15. nóvember næstkomandi. Alls munar 31 ári á köppunum. Tyson er 58 ára en Paul 27 ára. 

Paul ætlar að vera flottur til fara í bardaganum og engu verður til sparað til að hann líti sem best út.

„Við ætlum að búa til dýrustu stuttbuxur allra tíma fyrir þennan bardaga. Við erum að skipuleggja eitthvað brjálæði og ætlum að senda skilaboð. Við stefnum á að þetta kosti eina milljón Bandaríkjadala,“ sagði Paul. Ein milljón Bandaríkjadala samsvarar rúmlega 135 milljónum íslenskra króna.

Talið er að Paul og Tyson skipti með sér áttatíu milljónum Bandaríkjadala fyrir bardagann. Í nýlegu viðtali sagðist Tyson þó ekki keppa vegna peninganna. Hann eigi nóg af þeim.

Paul sigraði Mike Perry í síðasta bardaga sínum, í júlí. Hann hefur unnið tíu af ellefu bardögum sínum á ferlinum. Eina tapið kom gegn Tommy Fury í fyrra.

Box



Fleiri fréttir

Sjá meira


×