Innlent

Konan komst úr bílnum af sjálfs­dáðum

Tómas Arnar Þorláksson skrifar
Slysið varð nærri Skagaströnd.
Slysið varð nærri Skagaströnd. Vísir/Vilhelm

Bifreið hjóna sem lentu í alvarlegu umferðarslysi við Fossá á Skaga í gær var á hvolfi ofan í Fossá þegar að lögregla og viðbragðsaðilar komu á vettvang. Hjónin óku eftir malarvegi en svo virðist sem að maðurinn sem lést hafi misst stjórn á bílnum og ekið út af. 

Þetta staðfestir Birgir Jónasson, lögreglustjórinn á Norðurlandi vestra, í skriflegu svari til fréttastofu. Eiginkona mannsins sem lést komst úr bifreiðinni að sjálfsdáðum. Hún og vegfarendur náðu manninum úr bifreiðinni og hófu endurlífgunartilraunir.

Áður var greint frá því að bifreiðin hafi verið á tveggja metra dýpi en það kom fram í grein South China Morning Post um málið. Að sögn Birgis er það ekki rétt og bendir hann á að vatnið í ánni á umræddum stað er mismunandi djúpt eða á bilinu 40 til 150 sentímetrar. 

Eins og áður hefur verið greint frá lést lögregluþjónn frá Hong Kong í slysinu en eiginkona hans, sem er einnig lögreglumaður frá Hong Kong, var flutt á Sjúkrahúsið á Akureyri til aðhlynningar. 

Ekki er grunur um ölvunarakstur né hraðaakstur en hámarkshraði á umræddum vegi er 80 kílómetrar á klukkustund. Ekki hafa borist frekari fréttir af líðan konunnar en Birgir Jónasson, lögreglustjórinn á Norðurlandi vestra, sagði í samtali við Vísi í gær að hún væri í stöðugu ástandi.

Haft er eftir lögreglunni að bílaleigubíllinn sem hjónin óku hafi verið tiltölulega nýr. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×