Erlent

Al­ríkis­á­kærur gefnar út á hendur borgar­stjóra New York

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Adams hefur átt undir högg að sækja síðustu misseri.
Adams hefur átt undir högg að sækja síðustu misseri. Getty/Corbis/Andrew Lichtenstein

Ákærur hafa verið gefnar út á hendur Eric Adams, borgarstjóra New York og fyrrverandi lögreglustjóra. Ekki er vitað hvað nákvæmlega Adams er sakaður um.

Demókratinn Adams var kosinn borgarstjóri New York fyrir þremur árum og hét því meðal annars að taka á glæpum í stórborginni. Hann og starfsmenn framboðs hans hafa hins vegar sætt lögreglurannsókn, þar sem meðal annars var til skoðunar hvort framboðið hefði tekið við ólöglegum framlögum frá stjórnvöldum í Tyrklandi.

Adams mun vera fyrsti sitjandi borgarstjórinn í sögu New York borgar sem sætir alríkisákærum.

Gert er ráð fyrir því að yfirvöld uppljóstri í dag fyrir hvað Adams er ákærður og í framhaldinu verði honum gert að mæta fyrir dómara.

Adams gaf út yfirlýsingu í gær þar sem hann sagðist saklaus. Hann hefði alltaf vitað að hann yrði skotmark ef hann stæði fastur á sínu fyrir íbúa New York. Sagðist hann myndu grípa til varna gegn ásökununum.

Umrædd rannsókn og aðrar sem hafa staðið yfir á samstarfsmönnum Adams hafa valdið borgarstjóranum miklum vandræðum en hann undirbýr nú að sækjast eftir endurkjöri. Áköll eftir því að hann segi af sér hafa orðið háværari á síðustu vikum.

Þinkonan Alexandria Ocasio-Cortez er meðal þeirra sem hefur sagt ómögulegt fyrir Adams að halda áfram úr því sem komið er.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×