Upp­gjörið: Fylkir - KA 1-3 | KA kom Fylki í vonlitla stöðu

Andri Már Eggertsson skrifar
KA fagnaði 1-3 sigri gegn Fylki
KA fagnaði 1-3 sigri gegn Fylki Vísir/Pawel Cieslikiewicz

Bikarmeistararnir unnu 1-3 sigur gegn Fylki sem situr í neðsta sæti deildarinnar. Staðan var jöfn í hálfleik en KA gerði tvö mörk í seinni hálfleik og gestirnir fögnuðu sigri. 

Bikarmeistarar KA voru í stuði og með sjálfstraustið í botni þegar þeir mættu botnliði Fylkis. Þegar innan við mínúta var liðin af leiknum kom Ásgeir Sigurgeirsson gestunum yfir. Laglegt spil KA-manna endaði með því að Ásgeir fékk boltann hægra megin í teignum og átti gott skot með vinstri sem endaði í markinu.

Eins fjörlega og leikurinn fór af stað komu mörkin ekki á færibandi eins og byrjunin benti til. Liðin sköpuðu fá færi á síðasta þriðjungi en Þórður Gunnar Hafþórsson var nálægt því að jafna leikinn þegar þrumuskot hans vel fyrir utan teig endaði í þverslánni.

Heimamönnum tókst að jafna á 44. mínútu. Benedikt Daríus Garðarsson var nánast kominn að endalínu á vinstri kantinum og átti sendingu fyrir en Kári Gautason, leikmaður KA, setti fótinn fyrir og varð fyrir því óláni að gera sjálfsmark. Staðan í hálfleik var 1-1.

Í seinni hálfleik voru Fylkismenn líklegri að komast yfir og fengu færi til þess. Á 67. mínútu fengu gestirnir vítaspyrnu eftir að Ólafur Kristófer Helgason, markmaður Fylkis, tók Viðar Örn Kjartansson niður inn í vítateig. Hallgrímur Mar Steingrímsson skoraði úr vítinu.

Samvinna Hallgríms og Viðars hélt áfram og á 78. mínútu bætti Viðar við þriðja marki KA. Hallgrímur átti sendingu inn fyrir vörn Fylkis og á Viðar sem var ekki í vandræðum með að skora einn á móti markmanni. Viðar fagnaði ekki markinu en hann spilaði með liðinu árið 2013.

Í uppbótartíma fengu heimamenn vítaspyrnu eftir að Dagur Ingi Valsson togaði Ragnar Braga Sveinsson niður inn í vítateig. Dagur fékk beint rautt spjald í kjölfarið. Steinþór Már Auðunsson, markmaður KA, varði vítaspyrnuna frá Arnóri Breka Ásþórssyni og í kjölfarið var flautað til leiksloka. KA vann 1-3 útisigur.

Atvik leiksins

Viðar Örn Kjartansson setti hendurnar upp í loft og fagnaði ekki gegn sínu gamla félagi þegar hann skoraði þriðja mark KA. 

Stjörnur og skúrkar

Viðar Örn Kjartansson skilaði sínu og rúmlega það í dag. Viðar fiskaði víti í stöðunni 1-1 og gekk endanlega frá leiknum þegar hann kom KA í 3-1 með laglegu marki.

Eftir því sem leið á leikinn fór að draga úr varnarleik Fylkis. Í seinni hálfleik missti vörn Fylkis Viðar Örn inn fyrir í tvígang sem kostaði tvö mörk.

Dómarinn

Ívar Orri Kristjánsson dæmdi leikinn. Ívar dæmdi tvö víti í leiknum og komst að réttri niðurstöðu í bæði skiptin. Ívar nelgdi stóru ákvarðanirnar og fær 8 í einkunn.

Stemning og umgjörð

Alls voru 598 áhorfendur á Würth-vellinum í dag. Þrátt fyrir að Fylkir sé í neðsta sæti deildarinnar má hrósa stuðningsmönnum liðsins sem létu vel í sér heyra.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira