Erlent

Starfs­fólk farið að þjást af „laxaastma“

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Læknar í Noregi eru áhyggjufullir yfir stöðunni.
Læknar í Noregi eru áhyggjufullir yfir stöðunni. Vísir/Vilhelm

Dæmi eru um að alvarlegir öndunarfærasjúkdómar hafi gert vart við sig hjá starfsfólki sem vinnur við slátrun og pökkun á eldislaxi í Noregi. Fyrirbrigðið hefur hlotið viðurnefnið „laxaastmi“ og hlýst af því þegar andað er að sér vatnsúða sem inniheldur örsmáar agnir af laxaholdi, bakteríum og aðra vessa úr laxinum. Framkvæmdastjóri eldisins segir astma tengdan vinnu þekkt vandamál í fleiri geirum.

Þetta kemur fram í úttekt norska ríkisútvarpsins þar sem fjallað er um doktorsverkefni Carl Fredrik Fagernæs, læknanema við St. Olavs sjúkrahúsið í Þrándheimi. Segir í umfjölluninni að komu sjúklinga með öndunarfærasýkingu á spítalann sem starfi í eldisiðnaði hafi fjölgað undanfarin ár svo eftir hafi verið tekið.

NRK hefur eftir Fagernæs að læknar séu áhyggjufullir vegna þessarar þróunar. Þá einna helst vegna þess að veikindin hafi hingað til vakið litla athygli í Noregi og vegna þess að líklega sé töluverður fjöldi starfsfólks haldinn sýkingu án þess að gera sér grein fyrir því.

Farin að flauta á næturna

Í umfjöllun norska ríkismiðilsins er rætt við Kamilu Strus, pólskan innflytjenda sem starfar við slátrun og pökkun fyrir Leyro Midt í Hitra, skammt frá Þrándheimi í norðurhluta Noregs. Hún var færð á sjúkrahús í maí 2020 vegna einkenna sinna. Kamila segir að hún hafi haldið að hún myndi deyja, það hafi verið líkt og einhver sæti ofan á bringu hennar.

Haft er eftir Kamilu að hún hafi ekki átt við nein heilsufarsvandamál að stríða þegar hún hóf störf í iðnaðinum. Ekki heldur hafi verið dæmi um astma í fjölskyldunni hennar.

Í umfjöllun norska ríkisútvarpsins lýsir Kamila því hvernig einkennin fóru að gera vart við sig. Hún hafi gjarnan talið sig vera með flensu og að lokum hafi hún verið farin að hljóma eins og flauta á næturnar þannig hún vaknaði.

Fagernæs hefur áhyggjur af því að starfsfólk átti sig ekki á því að það sé með sýkingu.Vísir/Vilhelm

„Ef ég var frá í einhvern tíma átti ég auðveldara með að anda. Eftir tvo, þrjá tíma í vinnslunni gerðu vandamálin aftur vart við sig. Ég var svo þreytt eftir, hafði enga orku. Samt tengdi ég aldrei heilsufarið við vinnuna,“ segir Kamila.

Hún er hætt störfum fyrir fyrirtækið og ber því ekki slæma sögu. Hún hefur náð fyrri heilsu en lýsir því í NRK að hún sé enn atvinnulaus og hafi áhyggjur af eigin stöðu.

Úðinn sé meginorsök

Fagernæs segir við NRK að flestir sjúklinga sem hafi komið við sögu í rannsókn hans á sýkingunni hafi verið af austur-evrópskum uppruna, frá Litháen og Póllandi en einnig nokkrir Norðmenn. Rannsóknin hefur staðið yfir í fimm ár, frá árinu 2019.

Fylgst hefur verið með 36 manna hópi, sem öll eiga það sameiginlegt að eiga erfitt með öndun. Að sögn Fagernæs er starfsfólkið flest á fertugs og fimmtugsaldri. Öll hafa þau neyðst til þess að hætta störfum í iðnaðinum vegna þessa.

Frá vinnslu á eldislaxi.EPA-EFE/IDA MARIE ODGAARD

Fagernæs segir vatnsúðann vera meginorsakavaldinn. Vélar sem notaðar séu til að skera laxinn noti til þess vatnsbunur, auk þess sem vatn sé notað í ríkum mæli á færibandið. Vatn sé notað til þrifa á gólfum og úti á veggjum.

Læknirinn segir vatnsúðann hafa verið greindan af yfirvöldum. Í honum sé að finna fiskroð, bein, blóð og aðra líkamsvessa úr laxinum. Einnig sé þar að finna svepp og bakteríur. Fólk myndi með sér astma þegar það andi þessum úða að sér auk þess sem kalt er í vinnslustöðvunum. Fagernæs lýsir þessu í umfjöllun NRK sem laxaastma.

Ókleyft að halda áfram vinnu

Fram kemur í umfjöllun NRK að norskir læknar hafi tekið á móti sjúklingum með einkenni vegna starfa sinna við eldislaxiðnaðinn sem séu verri en hjá Kamilu. Sumir hafi þurft á aðstoð bráðamóttöku að halda í töluverðan tíma.

Að sögn Fagernæs eru 27 manns af 36 í hópnum með einkenni laxaastma. Meirihlutinn hafi ekki áður þurft að kljást við vandamál í öndunarvegi. Fram kemur í umfjölluninni að flest starfsfólk veigri sér við að vekja athygli á einkennum sínum, af ótta við að missa vinnuna. Hann segist hafa mælt með því við sína sjúklinga að þeir hætti alfarið störfum í geiranum.

Segjast hafa gert ráðstafanir

NRK heftur eftir Harald Larssen framkvæmdastjóra vinnslustöðvarinnar Leroy Midt að fyrirtækið tjái sig ekki um starfsmannamál. Hann bendir á að astmi tengdur vinnu sé víðtækt vandamál í fleiri geirum og bendir hann á bakarí og hárgreiðslustofur sem dæmi.

Hann segir fyrirtækið hafa gert margt til þess að bæta skilyrðin í eldislaxavinnslu sinni í Hitra, meðal annars með nýju loftæstikerfi. Þá segja forsvarsmenn annarra norskra eldislaxafyrirtækja líkt og SalMar og MOWI að velferð starfsfólks sé þeim efst í huga, gripið hafi verið til ráðstafana sem sporna eigi við slíkum öndunarfærasýkingum í nýjum húsakynnum.

NRK hefur eftir lækninum Fagernæs að hann sé óviss um að staða starfsfólks sé betri. Hann segir fjölda tilvika vera þann sama í dag og hann var fyrir fjórum, fimm árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×