Uppgjörið: Stjarnan - Keflavík 71-64 | Baráttuglaðar Stjörnustúlkur lögðu Íslandsmeistarana Siggeir Ævarsson skrifar 2. október 2024 21:00 Denia Davis-Stewart reif niður 28 fráköst í kvöld og skoraði 17 stig Vísir/Pawel Cieslikiewicz Íslandsmeistarar Keflavíkur mættu i heimsókn í Garðabæinn í kvöld með nokkuð laskað lið, en Birna Benónýsdóttir, Sara Rún Hinriksdóttir og Emilia Ósk Gunnarsdóttir eru allar meiddar og munar þar heldur betur um minna. Fjarvera þeirra virtist þó ekki há gestunum neitt í upphafi sem keyrðu hratt á Stjörnuna og leiddu 13-26 eftir fyrsta leikhluta þar sem Jasmine Dickey fór mikinn og skoraði helming stiga Keflavíkur. Jasmine Dickey bar hitann og þungann í sóknarleik Keflavíkur í kvöldVísir/Pawel Cieslikiewicz Aðalsmerki Stjörnunnar í fyrra var að gefast aldrei upp fyrr en í fulla hnefana og þar virðist ekkert hafa breyst. Þær þéttu vörnina og snéru leiknum algjörlega við í 2. leikhluta en jafnt var á öllum tölum í hálfleik, 35-35. Hin svokölluðu orkuskipti hafa verið mikið í fréttum undanfarið en þau virðast hafa farið fram í leik kvöldsins. Eftir sterka byrjun hjá gestunum, hátt orkustig og stífa vörn, varð algjör umpólun í leiknum. Stjarnan gekk algjörlega á lagið eftir góðan 2. leikhluta og voru fljótlega komnar tólf stigum yfir í 3. leikhluta. Anna Ingunn, fyrirliði Keflavíkur, sækir að körfunni en á ekki erindi sem erfiðiVísir/Pawel Cieslikiewicz Sóknarleikur Keflavíkur treysti að miklu leyti á einstaklingsframtak Dickey og þegar hægðist á henni hægðist á öllum þeirra sóknaraðgerðum. Stjarnan leiddi með tíu stigum fyrir lokaátökin. Það var brekka sem Íslandsmeistarar Keflvíkingar náðu einfaldlega ekki að spóla sig upp úr þrátt fyrir mjög heiðarlega tilraun undir lokin. Diljá Ögn Lárusdóttir er mætt aftur á parketið með látumVísir/Pawel Cieslikiewicz Sanngjarn baráttusigur heimakvenna staðreynd. Lokatölur í Garðabænum 71-64. Atvik leiksins Keflvíkingar hlóðu í áhlaup í 4. leikhluta þar sem þær breyttu stöðunni úr 62-48 í 62-57. Þær gátu minnkað muninn enn meira og voru í álitlegri sókn þegar sóknarvilla var dæmd á Thelmu Dís, fyrir litlar sakir að sjá úr blaðamannastúkunni. Karfa í þeirri sókn hefði mögulega snúið leiknum endanlega við. Stjörnur og skúrkar Kolbrún María Ármannsdóttir fór fyrir sóknarleik Stjörnunnar í kvöld og endaði með 23 stig sjö fráköst. Þá var Denia Davis-Stewart frábær undir körfunni og skilaði tröllatvennu í hús, 28 fráköst (þar af 13 sóknarmegin) og 17 stig. Ef hún nær að nýta skotin undir körfunni ögn betur munu engin bönd halda henni í vetur. Kolbrún María Ármannsdóttir var stigahæst Stjörnukvenna eins og svo oft áðurVísir/Pawel Cieslikiewicz Hjá Keflavík mæddi mikið á Jasmine Dickey sem skoraði 25 stig, en gaf aðeins tvær stoðsendingar. Thelma Dís Ágústsdóttir var eini leikmaður Keflavíkur fyrir utan Dickey sem komst í tveggja stafa tölu í stigaskori. Stigin hennar komu eiginlega öll í blálokin og ljóst að Keflvíkingar þurfa framlög úr fleiri áttum sóknarlega í næstu leikjum. Dómararnir Dómarar kvöldsins voru þeir Jón Þór Eyþórsson, Birgir Örn Hjörvarsson og Einar Valur Gunnarsson. Þeir voru mjög passífir á flautunni framan af leik og dæmdu ekki nema ellefu villur í fyrri hálfleik. Dómaratríó kvöldsinsVísir/Pawel Þeir slepptu ófáum nokkuð augljósum brotum en það virtist ekki pirra leikmenn inni á vellinum og þá er ekki hægt að kvarta. Leikurinn var hraður og flæddi vel, allt eins og við viljum hafa það. Stemming og umgjörð Lokkandi grillangan tók á móti fréttararitara í Umhyggjuhöllinni í kvöld og fyllti vitin. Svona á þetta að vera. Fínasta mæting og ágæt stemming í Garðabænum í kvöld, maður hefur oft séð það svartara á fyrsta leik haustsins. Enginn haustbragur yfir stemmingunni að þessu sinni. Viðtöl Friðrik Ingi: „Mér fannst einhvern veginn sjálfstraustið bara svolítið minnka og minnka“ Friðrik Ingi Rúnarsson, þjálfari KeflavíkurVísir/Pawel Cieslikiewicz Friðrik Ingi Rúnarsson, þjálfari Keflavíkur, var sáttur með byrjunina á leik kvöldsins en fannst sjálfstraust sinna kvenna þverra full hratt þegar á móti blés. „Ég er mjög ánægður hvernig við byrjuðum leikinn. Það var fín stemming og góð vinnsla í hópnum. Hlutirnir gengu vel og í okkur takti og því sem við viljum gera. Svo einhvern veginn kemst Stjarnan aðeins inn í leikinn, svona hægt og rólega nær sér á strik. Þá fórum við að hiksta og hika.“ „Við fórum að vera staðari, fórum að dripla meira. Boltinn flaut ekki eins mikið. Mér fannst einhvern veginn sjálfstraustið bara svolítið minnka og minnka. Ég svona skynjaði það. Eitt leiddi af öðru og Stjarnan komst á bragðið, nær að jafna og senda þetta í jafnan leik í hálfleik.“ Keflavík er án þriggja lykilleikmanna í upphafi móts. Stigaskor kvöldsins dreifðist á fáa leikmenn að þessu sinni og Friðrik sagði að það væri klár vilji hjá öðrum leikmönnum að stíga upp í fjarveru þeirra en þeir þyrftu tíma til að venjast stærra hlutverki. „Það er auðvitað bara vilji til þess hjá öllum í hópnum. Auðvitað eru ákveðnir leikmenn núna kannski í aðeins stærra hlutverki en áður og hafa verið frábærir leikmenn í þessari Keflavíkur-keðju. En það tekur auðvitað tíma, það er bara mannlegt. Það er ekkert leyndarmál, það sjá það allir, að leikmenn sem eru kannski að koma upp með boltann og stýra leik liðsins eru kannski ekkert vanir því í 40 mínútur. En við höfum svona verið að reyna að finna aðrar leiðir. Það hefur gengið ágætlega á köflum en svo vantar stundum herslumuninn.“ „Ég hef bara trú á því að við náum að finna betri takt í þessu svo auðvitað fögnum við því þegar við fáum fleiri leikmenn til baka. En ég er núna bara fyrst og fremst að fókusa á þá leikmenn sem eru heilir og eru með. Mitt hlutverk er að koma sjálfstrausti í þær og hægt og rólega þær læri inn á þau hlutverk sem þær eru í núna. Það verður bara að koma í ljós hvernig til tekst og hversu langan tíma þarf í það.“ Keflavík er aðeins með einn erlendan leikmann í sínum herbúðum í upphafi móts. Friðrik sagði að það væri ekkert leyndarmál að liðið væri að leita að einum erlendum leikmanni til viðbótar, en þeim leikmanni væri þó ekki ætlað að leysa meidda leikmenn af hólmi. „Ekki til að fylla í skarðið fyrir þá leikmenn sem eru meiddir en við erum búin að vera, síðla sumars og það sem af er hausti, að leita að evrópskum leikstjórnanda. Við erum búin að fá mörg nei en við erum að halda áfram að leita og vonandi er sú leit að koma á endastöð og við að landa leikmanni í þá leikstöðu. Það hefur ekki verið neitt leyndarmál en það er ekkert í staðinn fyrir þá leikmenn sem eru meiddir heldur einfaldlega að við teljum að við séum í þeirri stöðu að við þurfum leikstjórnanda.“ Aðspurður um hversu lengi liðið yrði án þeirra Birnu, Emilíu og Söru gat Friðrik ekki gefið upp nákvæman tímaramma. „Það eru einhverjar vikur í þessa leikmenn. Birna því miður verður ekkert með á þessu leiktímabili og það var svo sem alveg vitað. En með Söru og Emilíu, þá er ekki alveg gott að segja, en það eru allavega einhverjar vikur en vonandi fáum við bara að sjá þær aftur sem fyrst. Auðvitað líka fyrir íslenska landsliðið. Þetta eru leikmenn sem hafa verið að spila þar, en það kemur bara í ljós.“ Bónus-deild kvenna Stjarnan Keflavík ÍF
Íslandsmeistarar Keflavíkur mættu i heimsókn í Garðabæinn í kvöld með nokkuð laskað lið, en Birna Benónýsdóttir, Sara Rún Hinriksdóttir og Emilia Ósk Gunnarsdóttir eru allar meiddar og munar þar heldur betur um minna. Fjarvera þeirra virtist þó ekki há gestunum neitt í upphafi sem keyrðu hratt á Stjörnuna og leiddu 13-26 eftir fyrsta leikhluta þar sem Jasmine Dickey fór mikinn og skoraði helming stiga Keflavíkur. Jasmine Dickey bar hitann og þungann í sóknarleik Keflavíkur í kvöldVísir/Pawel Cieslikiewicz Aðalsmerki Stjörnunnar í fyrra var að gefast aldrei upp fyrr en í fulla hnefana og þar virðist ekkert hafa breyst. Þær þéttu vörnina og snéru leiknum algjörlega við í 2. leikhluta en jafnt var á öllum tölum í hálfleik, 35-35. Hin svokölluðu orkuskipti hafa verið mikið í fréttum undanfarið en þau virðast hafa farið fram í leik kvöldsins. Eftir sterka byrjun hjá gestunum, hátt orkustig og stífa vörn, varð algjör umpólun í leiknum. Stjarnan gekk algjörlega á lagið eftir góðan 2. leikhluta og voru fljótlega komnar tólf stigum yfir í 3. leikhluta. Anna Ingunn, fyrirliði Keflavíkur, sækir að körfunni en á ekki erindi sem erfiðiVísir/Pawel Cieslikiewicz Sóknarleikur Keflavíkur treysti að miklu leyti á einstaklingsframtak Dickey og þegar hægðist á henni hægðist á öllum þeirra sóknaraðgerðum. Stjarnan leiddi með tíu stigum fyrir lokaátökin. Það var brekka sem Íslandsmeistarar Keflvíkingar náðu einfaldlega ekki að spóla sig upp úr þrátt fyrir mjög heiðarlega tilraun undir lokin. Diljá Ögn Lárusdóttir er mætt aftur á parketið með látumVísir/Pawel Cieslikiewicz Sanngjarn baráttusigur heimakvenna staðreynd. Lokatölur í Garðabænum 71-64. Atvik leiksins Keflvíkingar hlóðu í áhlaup í 4. leikhluta þar sem þær breyttu stöðunni úr 62-48 í 62-57. Þær gátu minnkað muninn enn meira og voru í álitlegri sókn þegar sóknarvilla var dæmd á Thelmu Dís, fyrir litlar sakir að sjá úr blaðamannastúkunni. Karfa í þeirri sókn hefði mögulega snúið leiknum endanlega við. Stjörnur og skúrkar Kolbrún María Ármannsdóttir fór fyrir sóknarleik Stjörnunnar í kvöld og endaði með 23 stig sjö fráköst. Þá var Denia Davis-Stewart frábær undir körfunni og skilaði tröllatvennu í hús, 28 fráköst (þar af 13 sóknarmegin) og 17 stig. Ef hún nær að nýta skotin undir körfunni ögn betur munu engin bönd halda henni í vetur. Kolbrún María Ármannsdóttir var stigahæst Stjörnukvenna eins og svo oft áðurVísir/Pawel Cieslikiewicz Hjá Keflavík mæddi mikið á Jasmine Dickey sem skoraði 25 stig, en gaf aðeins tvær stoðsendingar. Thelma Dís Ágústsdóttir var eini leikmaður Keflavíkur fyrir utan Dickey sem komst í tveggja stafa tölu í stigaskori. Stigin hennar komu eiginlega öll í blálokin og ljóst að Keflvíkingar þurfa framlög úr fleiri áttum sóknarlega í næstu leikjum. Dómararnir Dómarar kvöldsins voru þeir Jón Þór Eyþórsson, Birgir Örn Hjörvarsson og Einar Valur Gunnarsson. Þeir voru mjög passífir á flautunni framan af leik og dæmdu ekki nema ellefu villur í fyrri hálfleik. Dómaratríó kvöldsinsVísir/Pawel Þeir slepptu ófáum nokkuð augljósum brotum en það virtist ekki pirra leikmenn inni á vellinum og þá er ekki hægt að kvarta. Leikurinn var hraður og flæddi vel, allt eins og við viljum hafa það. Stemming og umgjörð Lokkandi grillangan tók á móti fréttararitara í Umhyggjuhöllinni í kvöld og fyllti vitin. Svona á þetta að vera. Fínasta mæting og ágæt stemming í Garðabænum í kvöld, maður hefur oft séð það svartara á fyrsta leik haustsins. Enginn haustbragur yfir stemmingunni að þessu sinni. Viðtöl Friðrik Ingi: „Mér fannst einhvern veginn sjálfstraustið bara svolítið minnka og minnka“ Friðrik Ingi Rúnarsson, þjálfari KeflavíkurVísir/Pawel Cieslikiewicz Friðrik Ingi Rúnarsson, þjálfari Keflavíkur, var sáttur með byrjunina á leik kvöldsins en fannst sjálfstraust sinna kvenna þverra full hratt þegar á móti blés. „Ég er mjög ánægður hvernig við byrjuðum leikinn. Það var fín stemming og góð vinnsla í hópnum. Hlutirnir gengu vel og í okkur takti og því sem við viljum gera. Svo einhvern veginn kemst Stjarnan aðeins inn í leikinn, svona hægt og rólega nær sér á strik. Þá fórum við að hiksta og hika.“ „Við fórum að vera staðari, fórum að dripla meira. Boltinn flaut ekki eins mikið. Mér fannst einhvern veginn sjálfstraustið bara svolítið minnka og minnka. Ég svona skynjaði það. Eitt leiddi af öðru og Stjarnan komst á bragðið, nær að jafna og senda þetta í jafnan leik í hálfleik.“ Keflavík er án þriggja lykilleikmanna í upphafi móts. Stigaskor kvöldsins dreifðist á fáa leikmenn að þessu sinni og Friðrik sagði að það væri klár vilji hjá öðrum leikmönnum að stíga upp í fjarveru þeirra en þeir þyrftu tíma til að venjast stærra hlutverki. „Það er auðvitað bara vilji til þess hjá öllum í hópnum. Auðvitað eru ákveðnir leikmenn núna kannski í aðeins stærra hlutverki en áður og hafa verið frábærir leikmenn í þessari Keflavíkur-keðju. En það tekur auðvitað tíma, það er bara mannlegt. Það er ekkert leyndarmál, það sjá það allir, að leikmenn sem eru kannski að koma upp með boltann og stýra leik liðsins eru kannski ekkert vanir því í 40 mínútur. En við höfum svona verið að reyna að finna aðrar leiðir. Það hefur gengið ágætlega á köflum en svo vantar stundum herslumuninn.“ „Ég hef bara trú á því að við náum að finna betri takt í þessu svo auðvitað fögnum við því þegar við fáum fleiri leikmenn til baka. En ég er núna bara fyrst og fremst að fókusa á þá leikmenn sem eru heilir og eru með. Mitt hlutverk er að koma sjálfstrausti í þær og hægt og rólega þær læri inn á þau hlutverk sem þær eru í núna. Það verður bara að koma í ljós hvernig til tekst og hversu langan tíma þarf í það.“ Keflavík er aðeins með einn erlendan leikmann í sínum herbúðum í upphafi móts. Friðrik sagði að það væri ekkert leyndarmál að liðið væri að leita að einum erlendum leikmanni til viðbótar, en þeim leikmanni væri þó ekki ætlað að leysa meidda leikmenn af hólmi. „Ekki til að fylla í skarðið fyrir þá leikmenn sem eru meiddir en við erum búin að vera, síðla sumars og það sem af er hausti, að leita að evrópskum leikstjórnanda. Við erum búin að fá mörg nei en við erum að halda áfram að leita og vonandi er sú leit að koma á endastöð og við að landa leikmanni í þá leikstöðu. Það hefur ekki verið neitt leyndarmál en það er ekkert í staðinn fyrir þá leikmenn sem eru meiddir heldur einfaldlega að við teljum að við séum í þeirri stöðu að við þurfum leikstjórnanda.“ Aðspurður um hversu lengi liðið yrði án þeirra Birnu, Emilíu og Söru gat Friðrik ekki gefið upp nákvæman tímaramma. „Það eru einhverjar vikur í þessa leikmenn. Birna því miður verður ekkert með á þessu leiktímabili og það var svo sem alveg vitað. En með Söru og Emilíu, þá er ekki alveg gott að segja, en það eru allavega einhverjar vikur en vonandi fáum við bara að sjá þær aftur sem fyrst. Auðvitað líka fyrir íslenska landsliðið. Þetta eru leikmenn sem hafa verið að spila þar, en það kemur bara í ljós.“
Uppgjörið: KR - Grindavík 120-112 | KR fór með sigur úr framlengingu gegn fáliðuðum Grindvíkingum