Leikurinn var nokkuð sveiflukenndur en gestirnir leiddu með 13 stigum eftir fyrsta leikhluta, 13-26.
„Byrjaði nú ekki eins og við ætluðum okkur en ég er rosalega ánægður með stelpurnar í dag. Þær trúðu á verkefnið og þetta var upplagið allan tímann, að taka þennan leik. Þetta var ekki fallegt en við tökum tvö stigin.“
Að gefast ekki upp fyrr en í fulla hnefana var nokkurs konar einkennismerki Stjörnunnar í fyrra og það virðist ekkert hafa breyst í þeim efnum.
„Auðvitað. Eins og ég sagði fyrir leik, þetta eru náttúrulega bara geggjaðar stelpur. Það er nóg af ungum stelpum hérna sem eru tilbúnar að taka gólfið. Við sjáum bara að Berglind kemur hérna inn og hún er óhrædd. Hún er í 9. bekk! Það eru bara forréttindi að fá að þjálfa svona hóp.“
Diljá Ögn Lárusdóttir spilaði sinn fyrsta leik í langan tíma en hún missti af öllu síðasta tímabili vegna meiðsla. Hún skilaði 14 stigum í kvöld og er ljóst að Stjarnan fær mikinn liðsstyrk í henni.
„Það er óhætt að segja það. Þú sérð bara hvernig hún hreyfir sig, þetta er svolítið öðruvísi leikmaður. Ótrúlega gaman að hún skuli vera komin aftur og standa sig svona vel í fyrsta leik eftir hvað, eitt og hálft ár.“
Denia Davis-Stewart er að hefja sitt annað tímabil með Stjörnunni en það má segja að hún sé sannkölluð frákastavél, 20 slík hjá henni í kvöld.
„Hún er það. Hún er svo stressuð, hún er eiginlega bara betri þegar hún er svona stressuð. Sækir öll helvítis fráköstin, ryksugar þetta að sér.“

Ólafur viðurkenndi fúslega að það væri sætt að leggja Íslandsmeistarana í fyrsta leik haustsins en sagði jafnframt að hans lið ætti mikið inni.
„Auðvitað og ef það er einhvern tímann tími til að vinna þær þá er það núna, þær eru náttúrulega með hálft liðið úti. Ég er rosalega ánægður að við komum svona beittar til leiks. Við sjáum samt að það vantar alveg helling í okkar leik ennþá finnst mér. Þakið er miklu miklu hærra en þetta.“