Skoðun

Verð­mæta­sköpun og kennarar

Davíð Már Sigurðsson skrifar

Birtast verðmæti úr tómarúmi? Ég ætla að leyfa mér að fullyrða að flestir geta verið sammála um að svo er ekki. Aftur á móti virðist umræðan varðandi verðmæti litast af því að þegar verðmæti verða til þá komi það eins og þruma úr heiðskýru lofti, skapað af öflugum einstakling. Öflugir einstaklingar sem skapa verðmæti eru auðvitað frábær hlutur fyrir samfélagið því forsenda þess að reka velferðarríkin er að mörgu leiti undir því komið að hér sé öflugt atvinnulíf. Það virðist hins vegar eins og að skapa verðmæti séu eitthvað sem einungis ákveðnar stéttir eða atvinnugreinar geta gert tilkall til. Tæknigeirinn, fjármálageirinn, ferðaþjónustan, sjávarútvegurinn svo eitthvað sé nefnt. Þeir sömu og góla þetta út í tómið skauta yfirleitt fram hjá því að bak við hvern einstakling er að lágmarki tíu ára fjárfesting hins opinbera í formi menntunar í grunnskólum landsins. Auk þeirra ára sem einstaklingurinn nýtir í formi framhalds- og háskólanáms. Menntun er líklega öflugasta jöfnunartæki samtímans og leiðir af sér að hér er hægt að hér þokkalega siðmenntað samfélag. Og framleiða þessa öflugu verðmætaskapandi einstaklinga. Þá langar mig að færa þetta yfir á kennslu, eða kennara öllu heldur. Samkvæmt námskrá gegna kennarar lykilhlutverki í öllu skólastarfi eins og kennslu, stjórnun, uppeldi, ráðgjöf, rannsókn og þróunarstarfi. Við sinnum þó töluvert flóknara starfi en hægt er að samsama í þessum örfáu orðum. Þarna kemur þó ekkert fram um verðmætasköpun, en hvað ef svo væri?Hvað ef að litið væri á kennara sem verksmiðjur. Þeir vinna þá ákveðna auðlind. Varan sem þau vinna úr auðlindinni er svo af margvíslegum toga. Hún getur verið lögregluþjónn, stjórnmálamaður eða verkfræðingur svo eitthvað sé nefnt. En á það þó yfirleitt sameiginlegt að vera öflugir einstaklingar sem eru samfélaginu til hagsbóta. Til að mynda næsti Haraldur Þorleifsson. Sinna kennarar þá verðmætasköpun?

Höfundur er grunnskólakennari og þjálfari.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×