Upp­gjörið: HK - Fylkir 2-2 | Brynjar Snær felldi Fylki

Andri Már Eggertsson skrifar
HK - Fylkir Besta Deild karla Sumar 2024
HK - Fylkir Besta Deild karla Sumar 2024 vísir/Diego

HK og Fylkir gerðu 2-2 jafntefli í spennutrylli. Allt benti til þess að Fylkir myndi klára þetta en Brynjar Snær Pálsson jafnaði í uppbótartíma og Fylkir er fallið. 

Leikurinn fór rólega af stað og spilamennska liðanna bar þess merki hversu mikið var undir í Kórnum. HK-ingar dældu fyrirgjöfum inn í teig þar sem hætta skapaðist í kringum Atla Þór Jónasson.

Það var síðan á 45 mínútu sem Birkir Eyþórsson, leikmaður Fylkis, varð fyrir því óláni að gera sjálfsmark. Birnir Breki Burknason átti sendingu inn í teig og boltinn fór af Birki sem var í baráttunni við Atla Þór og lak inn.

Staðan í hálfleik var 1-0

Ólíkt fyrri hálfleik byrjaði síðari hálfleikur með látum. Þegar tæplega tvær mínútur voru liðnar af síðari hálfleik jafnaði Þóroddur Víkingsson metin með kollspyrnu eftir sendingu frá Arnóri Breka Ásþórssyni.

Martröð HK-inga hélt áfram þegar Benedikt Daríus Garðarsson kom Fylki yfir tólf mínútum síðar. Christoffer Petersen, markmaður HK, varði skot frá Arnóri Breka en boltinn datt beint fyrir Benedikt Daríus sem skoraði auðvelt mark.

Allt benti til þess að Fylkir myndi halda þetta út en djúpt inn í uppbótartíma jafnaði Brynjar Snær Pálsson metin. George Nunn tók hornspyrnu og boltinn datt fyrir Brynjar sem potaði boltanum í markið.

Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Fylkis, var brjálaður yfir því að Pétur Guðmundsson væri ekki búinn að flauta leikinn af og fékk beint rautt spjald. Niðurstaðan 2-2 jafntefli og Fylkir er fallið úr efstu deild.

Atvik leiksins

Jöfnunarmark Brynjars Snæs Pálssonar á 97. mínútu eftir að upp gefinn uppbótartími var sex mínútur. Þetta mark þýddi að Fylkir er endanlega fallið.

Stjörnur og skúrkar

Benedikt Daríus Garðarsson, leikmaður Fylkis, var öflugur og reyndist HK-ingum erfiður. Benedikt skoraði síðan annað mark Fylkis í seinni hálfleik.

Brynjar Snær Pálsson, leikmaður HK, bjargaði stigi fyrir heimamenn með jöfnunarmarki á 97. mínútu. Þó stig hafi talist vond úrslit fyrir HK fyrir leik var afar nauðsynlegt fyrir liðið að fá eitthvað úr því sem komið var.

Fylkismenn eru skúrkar fyrir það að hafa ekki náð að halda þetta út og klára þennan leik með sigri. Það var sérstakt að enginn leikmaður Fylkis hafi fengið gult spjald fyrir töf í uppbótartíma. Fylkismenn hefðu átt að beita öllum brögðum til þess að landa stigunum þremur.

Dómarinn 3

Pétur Guðmundsson dæmdi leikinn. Gestirnir voru stálheppnir að fá ekki á sig vítaspyrnu þegar Ásgeir Eyþórsson fékk augljóslega boltann í höndina en dómarateymið sá ekki ástæðu til þess að dæma vítaspyrnu.

Fylkismenn voru brjálaðir yfir því að Pétur hafi ekki verið búinn að flauta leikinn af en jöfnunarmarkið kom þegar mínúta var komin yfir upp gefinn uppbótartíma.

Stemning og umgjörð

Það var vel mætt í Kórinn í dag og áhorfendur létu vel í sér heyra. Mikilvægi leiksins var gríðarlegt og maður fann fyrir því að það var stress í stuðningsmönnum beggja liða

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira