Leik lokið: Víkingur - Stjarnan 2-2 | Óskar Örn bjargaði stigi fyrir Víking

Hjörvar Ólafsson skrifar
Óskar Örn Hauksson var í byrjunarliði Víkinga í fyrsta sinn í sumar.
Óskar Örn Hauksson var í byrjunarliði Víkinga í fyrsta sinn í sumar. Vísir/Anton Brink

Víkingur og Stjarnan skildu jöfn, 2-2, þegar liðin leiddu saman hesta sína í 25. umferð Bestu deildar karla í fótbolta á Víkingsvellinum í kvöld. Óskar Örn Hauksson jafnaði metin fyrir Víking á lokamínútunni í uppbórtartíma seinni hálfleiks.

Eftir nokkuð fjörugan fyrri hálfleik þar sem Óli Valur Ómarsson fékk besta færið fyrir Stjörnuna var staðan markalaus. Liðin höfðu skipst á að sækja án þess að ná að brjóta ísinn. 

Leikurinn opnaðist enn frekar í seinni hálfleik og það var stórglæsilegt mark Emils Atlasonar sem braut ísinn. Emil greip þá Pálma Rafn Arinbjörnsson, sem stóð milli stanganna í stað Ingvars Jónssonar, í bólinu og skoraði með skoti fyrir aftan miðlínu. 

Skömmu áður hafði Daði Berg Jónsson átt skot í slána en Daði Berg var þá nýkominn inná sem varamaður. 

Viktor Örlygur Andrason spilaði í vinstri bakverðinum fyrir Víking í fjarveru Tarik Ibrahimagic sem tók út leikbann í þessum leik. Viktor Örlygur jafnaði metin fyrir heimamenn nokkrum mínútum eftir að Emil hafði náð forystunni. 

Hilmar Árni Halldórsson náði forystunni fyrir Stjörnuna á nýjan leik á 88. mínútu leiksins. Óli Valur Ómarsson átti þá góða sendingu á Hilmar Árna sem kláraði færið af stakri prýði. 

Víkingur lagði hins vegar ekki árar í bát og hinn síungi kantmaður Óskar Örn Hauksson sá til þess að liðið færi stig úr þessari viðureign með jöfnunarmarki sínum á lokaandartökum leiksins. 

Þetta stig veitir Víkingi eins stigs forskot á Breiðablik sem mætir Val á Kópavogsvelli í kvöld. Stjarnan kemst hins vegar upp að hlið Val í þriðja til fjórða sæti. 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira