Skoðun

Af ofurhetjum og störfum þeirra

Kristín Björnsdóttir skrifar

Í dag er alþjóðlegur dagur kennara og við það tilefni er mikilvægt að kennarar taki höndum saman og veki athygli á því góða og öfluga starfi sem þeir inna af hendi daglega í skólum landsins. Kennarar eru sérfræðingar í kennslu og það skiptir miklu máli að í samfélaginu sé virðing borin fyrir þeirra störfum. Víða er pottur brotinn í starfsumhverfi kennara og álag í starfinu er mikið.

Þau sem ekki starfa innan grunnskólanna gera sér mörg hver ekki grein fyrir þeim afrekum sem kennarar vinna með því að efla færni ólíkra einstaklinga á mjög fjölbreyttan hátt þrátt fyrir ýmsar hindranir í veginum. Skortur á námsefni, skortur á úrræðum, skortur á heilnæmu húsnæði, skortur á fjármagni og skortur á fagmenntuðu starfsfólki og sérfræðingum eru þeirra á meðal. Þar að auki mætti nefna skort á kjarasamningi en kjaradeila kennara er komin á borð ríkissáttasemjara.

Á covid tímum unnu kennarar mikið afrek þegar þeim tókst með einstakri samheldni og einhug að halda íslenskum skólum opnum og umturna öllu skipulagi starfsins til að geta haldið kennslu áfram fyrir nemendur. Á mjög skömmum tíma urðu miklar tæknilegar og skipulagslegar breytingar en afrek sem þessi vilja gleymast í umræðunni um skólamál. Það fennir óþægilega fljótt yfir það sem vel er gert og því þarf að breyta! Samfélagið á að bera traust til kennara og ráðamenn sem hafa áhrif í umræðunni ættu að gera það líka.

Ég minnist þess að hafa sem ung stúlka fylgt móður minni, grunnskólakennaranum, í húsnæði í Hlíðunum þar sem hópur kennara í verkfalli hittist. Þeir ræddu málin, hughreystu og stöppuðu stálinu hver í annan. Ég man þrátt fyrir ungan aldur eftir þungu andrúmsloftinu sem ríkti yfir hópnum. Það er þyngra en tárum taki að við skulum ennþá vera í þeirri stöðu um fjörutíu árum síðar að þurfa að setjast við borð ríkissáttasemjara til að ræða leiðréttingu á launum okkar og knýja fram breytingar.

Kennarar eru ofurhetjur og ég er þakklát fyrir að tilheyra þeirra hópi. Ofurhetjur hugsa nefnilega út fyrir boxið og eru óhræddar við að feta ótroðnar slóðir á vegferð sinni.

Bestu kveðjur til ykkar kæru kennarar og njótið dagsins!

Höfundur er formaður Kennarafélags Reykjavíkur.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×