Uppgjörið: ÍA - FH 4-1 | Skagamenn blanda sér í baráttuna um þriðja sætið Ágúst Orri Arnarson skrifar 6. október 2024 16:00 vísir/anton ÍA lenti undir á fyrstu mínútu gegn FH en sneri leiknum sér í hag með glæsibrag og vann 4-1 sigur. Skagamenn eru nú aðeins tveimur stigum frá þriðja sæti deildarinnar þegar tvær umferðir eru eftir. Liðin voru bæði án lykilmanna, enda farið að síga á seinni hluta tímabilsins, þreyta og meiðsli að segja til sín og spjöldin farin að safnast upp. Fyrirliði FH-inga, Björn Daníel Sverrisson, byrjaði á bekknum. Auk þess sem Kristján Flóki Finnbogason og Grétar Snær Gunnarsson tóku út leikbann. Hjá ÍA var Marko Vardic utan hóps og verður líklega ekki meira með á tímabilinu. Þreytumerki voru svo sannarlega sjáanleg í báðum liðum, varnirnar lengi að skila sér til baka sem bauð upp á mjög fjörugan fyrri hálfleik og mikið af færum. Kjartan Kári byrjaði á því að koma FH yfir með marki beint úr aukaspyrnu á 1. mínútu leiksins. Var ekki í neinni skotstöðu en skaut bara samt, frá hliðarlínu vítateigs og beint í nærhornið. Annað sinn í röð sem hann kemur á Skagann og lætur markmann ÍA líta mjög illa út. FH hélt öflugri byrjun áfram næstu mínúturnar en þá var komið að heimamönnum. Viktor Jónsson jafnaði á leikinn á 10. mínútu, lúrði á fjærstönginni og stangaði fyrirgjöf Steinars Þorsteinssonar í netið. Jón Gísli Eyland bætti svo við skömmu síðar, slúttaði örugglega eftir góðan sprett upp vinstri vænginn og sendingu frá Hauki Arnari Haraldssyni. Haukur átti aftur stoðsendinguna í þriðja markinu, frábær utanfótarsending yfir vörnina og beint í hlaupalínu Johanness Vall, sem brunaði upp vinstri vænginn og laumaði boltanum í fjærhornið framhjá markverðinum. Það var töluvert um góð færi það sem eftir lifði fyrri hálfleiks en fleiri mörk voru ekki skoruð áður en liðin gengu til búningsherbergja. Tæpar tvær mínútur voru liðnar af seinni hálfleik þegar staðan breyttist aftur. Hinrik Harðarson slapp einn í gegn eftir góða sendingu yfir vörnina frá Oliver Stefánssyni, hafði nægan tíma og lagði boltann rólega framhjá markverðinum. Markið gerði útslagið og slökkti algjörlega í leiknum. FH sá ekki endurkomu í kortunum og lagði lítið á sig til að minnka muninn. Viktor Jónsson fékk frábært færi til að stækka forystu ÍA enn frekar og bæta markamet Bestu deildarinnar, en það þarf að bíða betri tíma. Afskaplega öruggur sigur ÍA engu að síður. Liðið er enn þá á lífi í baráttunni um hið eftirsótta þriðja sæti sem gefur þátttökurétt í undankeppni Sambandsdeildarinnar. FH er hins vegar búið að stimpla sig út og situr í 6. sæti deildarinnar. Atvik leiksins Fjórða mark ÍA gjörbreytti leiknum. FH var enn sprelllifandi í fyrri hálfleik og liðið skapaði fullt af færum til að minnka muninn í stöðunni 3-1, en þegar fjórða markið kom strax í upphafi seinni hálfleiks fjöruðu vonir Hafnfirðinga út í sjó. Vel gert hjá ÍA, mættu af krafti og kláruðu leikinn snemma. Stjörnur og skúrkar Johannes Vall verðskuldað valinn maður leiksins. Hinrik Harðarson átti einnig frábæran leik, líkt og Viktor Jónsson. Framherjarnir skoruðu báðir og hefðu getað bætt öðru marki við en voru óheppnir. Heildarframmistaða ÍA annars til fyrirmyndar í alla staði, fyrir utan klaufamarkið á fyrstu mínútu sem skrifast á markmanninn Árna Marínó, en hann bætti úr því næstu 89 mínúturnar. Margt sem hefði mátt fara betur hjá FH. Vörn og miðja ekki að vinna saman, mikið bil milli bak- og miðvarða. Sóknarlínan ógnaði töluvert en tók oft undarlegar ákvarðanir á úrslitastundum. Stemning og umgjörð Ekki yfir neinu að kvarta. Völlurinn grænn og glæsilegur, glampandi sólskin og grillið glóandi. Vel mætt, rúmlega fimm hundruð manns sem sátu í sólinni og hvöttu Skagamenn áfram. Dómarar Vilhjálmur Alvar með flautuna. Gylfi Már og Eysteinn Hrafnkelsson héldu um flöggin. Gunnar Freyr sá fjórði. Fínasta frammistaða hjá fjóreykinu. Mjög lítið um vafaatriði vissulega, en vel haldið utan um leikinn. Viðtöl „Við náðum ekki að loka á neitt“ Heimir Guðjónsson, þjálfari FH.Vísir/Hulda Margrét „Við vorum bara langnæstbestir í dag. Skaginn nýtti styrkleika sína og við spiluðum engan varnarleik, sérstaklega ekki í fyrri hálfleik. Skagamenn eru góðir í skyndisóknum og góðir að fylla teiginn í fyrirgjöfum, sérstaklega Viktor Jónsson. Við náðum ekki að loka á neitt af þessu og varnarleikurinn var þannig að menn voru alltaf að bíða eftir því að næsti maður reddaði hlutunum. Þeir voru bara betri á öllum sviðum fótboltans,“ sagði svekktur Heimir Guðjónsson, þjálfari FH, eftir leik. Hann segir sína menn ekki hafa lagt sig fram við varnarleikinn í dag, Skaginn fann pláss og hættulegar stöður í nánast hverri sókn. „Þeir settu boltann yfir okkur, í svæði milli varnar og miðju, fóru þaðan út á vængina og við náðum ekki að loka á neitt. Vorum bara heilt yfir ekki nógu góðir.“ FH stimplaði sig út úr baráttunni um þriðja sætið með þessu tapi og hefur að litlu að spila það sem eftir er af mótinu. „Markmiðið hlýtur að vera að sýna smá stolt. Ég held að það sé lykilatriði þegar það er ekkert að spila fyrir, en miðað við þessa síðustu tvo leiki þá sýnist mér við ekki eiga mikið af því. Við höfum tvær vikur núna til að fara yfir málin og sjá hvort við viljum ekki klára mótið með smá sæmd,“ sagði Heimir að lokum. Besta deild karla ÍA FH
ÍA lenti undir á fyrstu mínútu gegn FH en sneri leiknum sér í hag með glæsibrag og vann 4-1 sigur. Skagamenn eru nú aðeins tveimur stigum frá þriðja sæti deildarinnar þegar tvær umferðir eru eftir. Liðin voru bæði án lykilmanna, enda farið að síga á seinni hluta tímabilsins, þreyta og meiðsli að segja til sín og spjöldin farin að safnast upp. Fyrirliði FH-inga, Björn Daníel Sverrisson, byrjaði á bekknum. Auk þess sem Kristján Flóki Finnbogason og Grétar Snær Gunnarsson tóku út leikbann. Hjá ÍA var Marko Vardic utan hóps og verður líklega ekki meira með á tímabilinu. Þreytumerki voru svo sannarlega sjáanleg í báðum liðum, varnirnar lengi að skila sér til baka sem bauð upp á mjög fjörugan fyrri hálfleik og mikið af færum. Kjartan Kári byrjaði á því að koma FH yfir með marki beint úr aukaspyrnu á 1. mínútu leiksins. Var ekki í neinni skotstöðu en skaut bara samt, frá hliðarlínu vítateigs og beint í nærhornið. Annað sinn í röð sem hann kemur á Skagann og lætur markmann ÍA líta mjög illa út. FH hélt öflugri byrjun áfram næstu mínúturnar en þá var komið að heimamönnum. Viktor Jónsson jafnaði á leikinn á 10. mínútu, lúrði á fjærstönginni og stangaði fyrirgjöf Steinars Þorsteinssonar í netið. Jón Gísli Eyland bætti svo við skömmu síðar, slúttaði örugglega eftir góðan sprett upp vinstri vænginn og sendingu frá Hauki Arnari Haraldssyni. Haukur átti aftur stoðsendinguna í þriðja markinu, frábær utanfótarsending yfir vörnina og beint í hlaupalínu Johanness Vall, sem brunaði upp vinstri vænginn og laumaði boltanum í fjærhornið framhjá markverðinum. Það var töluvert um góð færi það sem eftir lifði fyrri hálfleiks en fleiri mörk voru ekki skoruð áður en liðin gengu til búningsherbergja. Tæpar tvær mínútur voru liðnar af seinni hálfleik þegar staðan breyttist aftur. Hinrik Harðarson slapp einn í gegn eftir góða sendingu yfir vörnina frá Oliver Stefánssyni, hafði nægan tíma og lagði boltann rólega framhjá markverðinum. Markið gerði útslagið og slökkti algjörlega í leiknum. FH sá ekki endurkomu í kortunum og lagði lítið á sig til að minnka muninn. Viktor Jónsson fékk frábært færi til að stækka forystu ÍA enn frekar og bæta markamet Bestu deildarinnar, en það þarf að bíða betri tíma. Afskaplega öruggur sigur ÍA engu að síður. Liðið er enn þá á lífi í baráttunni um hið eftirsótta þriðja sæti sem gefur þátttökurétt í undankeppni Sambandsdeildarinnar. FH er hins vegar búið að stimpla sig út og situr í 6. sæti deildarinnar. Atvik leiksins Fjórða mark ÍA gjörbreytti leiknum. FH var enn sprelllifandi í fyrri hálfleik og liðið skapaði fullt af færum til að minnka muninn í stöðunni 3-1, en þegar fjórða markið kom strax í upphafi seinni hálfleiks fjöruðu vonir Hafnfirðinga út í sjó. Vel gert hjá ÍA, mættu af krafti og kláruðu leikinn snemma. Stjörnur og skúrkar Johannes Vall verðskuldað valinn maður leiksins. Hinrik Harðarson átti einnig frábæran leik, líkt og Viktor Jónsson. Framherjarnir skoruðu báðir og hefðu getað bætt öðru marki við en voru óheppnir. Heildarframmistaða ÍA annars til fyrirmyndar í alla staði, fyrir utan klaufamarkið á fyrstu mínútu sem skrifast á markmanninn Árna Marínó, en hann bætti úr því næstu 89 mínúturnar. Margt sem hefði mátt fara betur hjá FH. Vörn og miðja ekki að vinna saman, mikið bil milli bak- og miðvarða. Sóknarlínan ógnaði töluvert en tók oft undarlegar ákvarðanir á úrslitastundum. Stemning og umgjörð Ekki yfir neinu að kvarta. Völlurinn grænn og glæsilegur, glampandi sólskin og grillið glóandi. Vel mætt, rúmlega fimm hundruð manns sem sátu í sólinni og hvöttu Skagamenn áfram. Dómarar Vilhjálmur Alvar með flautuna. Gylfi Már og Eysteinn Hrafnkelsson héldu um flöggin. Gunnar Freyr sá fjórði. Fínasta frammistaða hjá fjóreykinu. Mjög lítið um vafaatriði vissulega, en vel haldið utan um leikinn. Viðtöl „Við náðum ekki að loka á neitt“ Heimir Guðjónsson, þjálfari FH.Vísir/Hulda Margrét „Við vorum bara langnæstbestir í dag. Skaginn nýtti styrkleika sína og við spiluðum engan varnarleik, sérstaklega ekki í fyrri hálfleik. Skagamenn eru góðir í skyndisóknum og góðir að fylla teiginn í fyrirgjöfum, sérstaklega Viktor Jónsson. Við náðum ekki að loka á neitt af þessu og varnarleikurinn var þannig að menn voru alltaf að bíða eftir því að næsti maður reddaði hlutunum. Þeir voru bara betri á öllum sviðum fótboltans,“ sagði svekktur Heimir Guðjónsson, þjálfari FH, eftir leik. Hann segir sína menn ekki hafa lagt sig fram við varnarleikinn í dag, Skaginn fann pláss og hættulegar stöður í nánast hverri sókn. „Þeir settu boltann yfir okkur, í svæði milli varnar og miðju, fóru þaðan út á vængina og við náðum ekki að loka á neitt. Vorum bara heilt yfir ekki nógu góðir.“ FH stimplaði sig út úr baráttunni um þriðja sætið með þessu tapi og hefur að litlu að spila það sem eftir er af mótinu. „Markmiðið hlýtur að vera að sýna smá stolt. Ég held að það sé lykilatriði þegar það er ekkert að spila fyrir, en miðað við þessa síðustu tvo leiki þá sýnist mér við ekki eiga mikið af því. Við höfum tvær vikur núna til að fara yfir málin og sjá hvort við viljum ekki klára mótið með smá sæmd,“ sagði Heimir að lokum.
Umfjöllun: Slóvenía - Ísland 18-23 | Himneskur Viktor og íslensk vörn í lykilsigri á HM Handbolti
Umfjöllun: Slóvenía - Ísland 18-23 | Himneskur Viktor og íslensk vörn í lykilsigri á HM Handbolti