Fótbolti

Gaf klárum bolta­strák verð­launin

Sindri Sverrisson skrifar
Boltastrákurinn fékk verðlaunin sem besti maður leiksins, og gott faðmlag frá Nico Gonzalez.
Boltastrákurinn fékk verðlaunin sem besti maður leiksins, og gott faðmlag frá Nico Gonzalez. Porto

Boltastrákur í mikilvægum leik Porto og Braga í portúgölsku úrvalsdeildinni í fótbolta í gær hafði mikið að segja um úrslit leiksins, sem Porto vann 2-1.

Nico Gonzalez, miðjumaður Porto, gaf boltastráknum verðlaunin sem Gonzalez hafði fengið sem mikilvægasti maður leiksins. Boltastrákurinn hafði nefnilega átt stóran þátt í sigurmarki leiksins.

Strákurinn var fljótur að átta sig þegar boltinn fór út fyrir hliðarlínu og kastaði strax á Martim Fernandes sem tók innkast á Gonzalez. Þeir Pepe léku svo saman áður en Pepe skoraði markið mikilvæga.

„Fengum þrjú stig þökk sé honum“

Leikmenn og þjálfari Porto voru sammála um að boltastrákurinn hefði þarna skipt sköpum.

„Við fengum þrjú stig í dag þökk sé honum. Hann mun fá það hrós sem hann á skilið,“ sagði Vitor Bruno, þjálfari Porto, við blaðamenn.

„Þessir boltastrákar eru mjög mikilvægir. Það er nauðsynlegt fyrir þá sem eru utan vallar og taka ekki virkan þátt í leiknum, að átta sig á því hvernig þeir geta hjálpað, jafnvel utan vallar,“ sagði Bruno.

Porto, sem gerði 3-3 jafntefli við Manchester United í Evrópudeildinni í síðustu viku, er eftir sigurinn í gær með sjö sigra í átta deildarleikjum, og alls 21 stig. Liðið er þó þremur stigum á eftir ríkjandi meisturum Sporting Lissabon. Braga hefði með sigri verið stigi á eftir Porto en er í 6. sæti með 14 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×