Erlent

Deila Nóbelnum fyrir upp­götvun á miRNA

Kjartan Kjartansson skrifar
Victor Ambros og Gary Ruvkun eru Nóbelsverðlaunahafar í læknisfræði árið 2024.
Victor Ambros og Gary Ruvkun eru Nóbelsverðlaunahafar í læknisfræði árið 2024. Nóbelsnefndin.

Bandaríkjamennirnir Victor Ambros og Gary Ruvkun deila Nóbelsverðlaununum í læknisfræði í ár fyrir uppgötvunina á svonefndu miRNA og hlutverki þeirra í genastjórnun eftir umritun. Þeir störfuðu báðir hjá Harvard-háskóla í Bandaríkjunum þegar þeir stunduðu rannsóknir sínar.

Greint var frá ákvörðun sænsku Nóbelsnefndarinnar nú í morgun. Í rökstuðningi nefndarinnar kom fram að uppgötvunin hefði grundvallarþýðingu fyrir hvernig lífverur þróast og starfa. MiRNA eða míkró-RNA eru örstuttar ríbósakjarnsýrur (RNA) sem stjórna genatjáningu og eru lykilstjórnsameindir í frumum.

Uppgötvunin varpaði þannig nýju ljósi á starfsemi gena í mannslíkamanum. Áður en míkró-RNA fannst töldu erfðafræðingar að prótín réði öllu í starfsemi fruma. Míkró-RNA hafa síðan reynst þýðingarmiklar fyrir þróun lífs, sérstaklega fjölfrumunga, þar á meðal mannkynsins. 

Rannsóknir Ambros og Ruvkun veittu meðal annars innsýn í hvernig ákveðnar frumur nota erfðatáknmálið á sérhæfðan hátt, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×