Sport

Kærasti Fallons Sherrock niður­brotinn eftir sárt tap

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Cameron Menzies smellir kossi á Fallon Sherrock.
Cameron Menzies smellir kossi á Fallon Sherrock. getty/Zac Goodwin

Pílukastarinn Cameron Menzies var afar svekktur út í sjálfan sig eftir tap fyrir Dave Chisnall, 2-0, á World Grand Prix í gær. Hann segist vera óralangt frá því að láta draum sinn um að verða atvinnumaður rætast.

Þótt Menzies sé í 44. sæti heimslistans í pílukasti er hann kannski þekktastur fyrir að vera kærasti Fallons Sherrock, einu konunnar sem hefur unnið leik á HM í pílukasti.

Auk þess að vera pílukastari starfar Menzies sem pípari. Hann dreymir samt um að verða atvinnumaður í pílukasti en eftir tapið fyrir Chisnall sagði hann að langt þar til sá draumur rætist.

„Þess vegna vinn ég fyrir mér. Ég er svo langt frá því að verða atvinnumaður og dagurinn í dag kramdi hjartað í mér. Ég biðst afsökunar,“ skrifaði Menzies á Twitter.

Sem fyrr sagði er Menzies í 44. sæti heimslistans í pílukasti en hann hefur þénað 139.750 pund, eða tæplega 25 milljónir íslenskra króna, undanfarin tvö og hálft ár. Til samanburðar hefur efsti maður heimslistans, Luke Humphries, þénað 1.681.750 pund, eða næstum því þrjú hundruð milljónir króna.

Menzies tapaði einnig fyrir Chisnall í 2. umferð á heimsmeistaramótinu um áramótin. Hann komst hins vegar lengra en Sherrock sem féll úr leik í 1. umferð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×