Körfubolti

Dagur Kár neyðist til að hætta

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Skórnir eru komnir upp í hillu hjá Degi Kár Jónssyni.
Skórnir eru komnir upp í hillu hjá Degi Kár Jónssyni. vísir/hulda margrét

Körfuboltamaðurinn Dagur Kár Jónsson hefur neyðst til að leggja skóna á hilluna vegna þrálátra meiðsla, aðeins 29 ára að aldri.

Dagur hóf og endaði ferilinn með Stjörnunni. Hann lék samt nánast ekkert með liðinu á síðasta tímabili vegna meiðsla í hné og baki. Hann gekkst undir aðgerð í febrúar en hún skilaði ekki tilætluðum árangri.

„Það er vissulega erfið ákvörðun að leggja skóna á hilluna en nú er skrokkurinn búinn að segja stopp. Ég er hins vegar stoltur af ferlinum og mjög þakklátur fyrir það að enda hann hérna heima í Stjörnunni. Sem Garðbæingur og uppalinn Stjörnumaður hlakka ég til að styðja áfram liðið úr stúkunni,“ sagði Dagur í tilkynningu frá Stjörnunni.

Dagur varð bikarmeistari með Stjörnunni 2013 og 2015. Eftir tímabilið 2015 hélt hann til Bandaríkjanna þar sem hann stundaði nám og spilaði með St. Francis háskólanum. Dagur lék með Grindavík á árunum 2016-18 og lék um Íslandsmeistaratitilinn með liðinu 2017.

Dagur  lék með Flyers Wels í Austurríki 2018-19, Grindavík 2019-21 og svo Ourense á Spáni 2021-22. Hann sneri aftur heim 2022 og gekk í raðir KR. Í ársbyrjun 2023 fór Dagur svo aftur í Stjörnuna.

Á ferli sínum lék Dagur sex A-landsleiki auk fjölda leikja fyrir yngri landsliðin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×