Ísland hlaut 174 af 183 greiddum atkvæðum í kosningunum en auk Íslands voru Spánn og Sviss í framboði um þrjú sæti hóps vestrænna ríkja en þetta er í annað sinn sem Ísland fær sæti í ráðinu.
Alls sitja 47 ríki í ráðinu en næsta kjörtímabil hefst í byrjun árs 2025 og lýkur í lok árs 2027.
„Mikil ábyrgð felst í því að taka sæti í mannréttindaráðinu sem hefur það helsta markmið að efla og vernda mannréttindi um heim allan. Við erum þakklát fyrir þann breiða stuðning sem okkur var sýndur í kosningunum í dag og við tökum við þessu verkefni af auðmýkt og alvöru, tilbúin að leggja okkur öll fram,“ er haft eftir Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, utanríkisráðherra, á vef Stjórnarráðsins.
„Við stöndum einfaldlega frammi fyrir miklum áskorunum þar sem mannréttindi eiga mjög víða undir högg að sækja. Okkar helsta markmið í ráðinu verður barátta fyrir bættum mannréttindum allra og þá leggjum við áherslu á að styrkja ráðið sem málsvara mannréttinda, sem það þarf að vera. Ísland, sem nýtur góðs af góðri stöðu heima fyrir, tekur þessu ábyrgðarhlutverki á alþjóðasviðinu alvarlega á þeim krefjandi tímum sem við lifum.“
Þórdís segir að Ísland muni leggja kapp á að efla samstöðu um grundvallargildi mannréttinda, sem eigi víða undir högg að sækja. Sérstök áhersla verði lögð á að grundvallarmannréttindi stúlkna og kvenna séu virt, auk mannréttinda barna og hinsegin fólks.
Áhugasamir geta fundið yfirlit yfir helstu áherslur Íslands hér.