Upp­gjörið: Höttur - Kefla­vík 120-115 | Fá­liðaðir Hattarmenn kláruðu Keflvík í fram­lengingu

Gunnar Gunnarsson skrifar
Adam Eiður Ásgeirsson, fyrirliði Hattar, skoraði 15 stig í kvöld
Adam Eiður Ásgeirsson, fyrirliði Hattar, skoraði 15 stig í kvöld Vísir/Bára Dröfn

Höttur vann Keflavík 120-115 í framlengdum leik í úrvalsdeild karla í körfuknattleik á Egilsstöðum í kvöld. Höttur reyndist sterkari í framlengingunni þótt í henni færu fjórir leikmenn liðsins út af með fimm villur.

Höttur hitti betur í fyrsta leikhluta og var 32-27 yfir eftir hann. Í öðrum leikhluta kom Halldór Garðar Hermannsson, fyrirliði Keflavíkur, inn í leikinn af krafti og hleypti baráttu í sitt lið. Þar með varð leið Hattar að körfunni torveldari meðan Keflavík hélt áfram sínum leik sem var að sækja hratt og leyfa heimamönnum aldrei að stilla upp í vörn.

Halldór átti líka sinn þátt í að æsa upp skap Hattarmanna sem fóru að lenda á eftir í vörninni og fengu alls á sig tíu villur í leikhlutanum. Keflavík skoraði 11 stigum meira í honum og var 52-58 yfir í hálfleik.

Keflavík hélt forustu sinni í gegnum þriðja leikhluta. Höttur átti nokkur áhlaup en alltaf þegar liðið átti annað hvort tækifæri með að jafna í næstu sókn, tækist því að verjast, eða jafnvel komast yfir í þau fáu skipti sem var jafnt þá átti Keflavík svar í næstu sókn.

Loks átti Keflavík ekki svör

Keflavík var 72-79 yfir þegar fjórði leikhluti hófst og framan af spilaðist hann svipað og sá þriðji. Höttur átti sín áhlaup en Keflavík svaraði. Þessi kafli var mjög skemmtilegur, bæði lið spiluðu góðan sóknarleik og hittu vel.

Þetta virtist ætla að halda áfram þegar Hilmar Pétursson setti niður þriggja stiga skot langt utan af velli og kom Keflavík í 89-95 þegar um fjórar mínútur voru eftir. Hattarmenn héldu hins vegar áfram að hitta og fóru að ná að stoppa eina og eina sókn Keflavíkur.

Þegar 1:42 mínútur voru eftir var dæmd tæknivilla á Wendell Green fyrir mótmæli. Obie Trotter jafnaði úr vítinu og kom Hetti yfir með þriggja stiga skoti úr sókninni sem fylgdi. Keflvíkingar jöfnuðu strax og í blálokin fengu bæði lið sóknir sem ekki nýttust.

Höttur sterkari þrátt fyrir villuvandræði

Höttur skoraði fyrstu þrjú stigin í framlengingunni en síðan fóru hlutirnir að versna. Curvoisier McCauley varð fyrstur af þeim fimm Hattarmönnum sem hófu framlenginguna með fjórar villur til að fá þá fimmtu. Gustav Suh-Jessen og loks Nemanja Knezevic fygldu svo á eftir.

En maður kom í manns stað. Félagar þeirra héldu áfram að spila agað í sókninni og setja góð skot, meðan þeir spiluðu ákafa vörn og ýttu Keflvíkingum sífellt utar í erfiðari skot. Tæp mínúta var eftir þegar Knezevic fór út af en Höttur var þá að komið í fjögurra stiga forskot, 114-110. Keflvíkingar reyndu að Hattarmenn áttu alltaf svör og skiluðu sigrinum í hús.

Curvoisier McCauley var stigahæstur hjá Hetti með 28 stig, auk þess að taka 12 fráköst. Matej Karlovic skoraði 17 stig, en fyrir leikinn var óvíst hvort hann myndi spila vegna meiðsla. Hann lék í tæpar 27 mínútur. Wendell Green fór fyrir sóknarleik Keflavíkur, skoraði 32 stig.

Hvað réði úrslitum?

Í jöfnum leik var það leikur Hattar síðustu fjórar mínúturnar í síðasta leikhluta og í framlengingunni sem skipta sköpum. Hetti tókst þarna að stoppa aðeins Wendell Green en á sama tíma hittu leikmenn eins og Matej Karlovic og Adam Heede-Andersen, sem áður höfðu verið kaldir, vel. En það má líka tiltaka Obie Trotter og Gustav Suhr-Jessen með virkilega mikilvægar körfur. Fram að því var bekkurinn hjá Keflavík með töluvert meira framlag en bekkurinn hjá Hetti.

Hvað gekk vel?

Þetta var skemmtilegur körfuboltaleikur, bæði lið sýndu heilt yfir góðan sóknarleik og skoruðu oft fallegar körfur. Tilþrif leiksins eru sennilega undir lok leiksins þegar Wendell, kominn í vandræði, sendi boltann aftur og yfir höfuð sér á Sigurð Pétursson sem skoraði.

En það má líka tiltaka sóknarleik Hattar, svo að segja yfir leikinn og varnarleik liðsins frá miðjum fjórða leikhluta.

Hverjir stóðu upp úr?

Eins og stigaskorið ber með sér þá átti Wendell Green skínandi leik. Það má líka minnast á Halldór Garðar sem kom Keflavíkur liðinu í gang þegar það snéri leiknum sér í vil í öðrum leikhluta. Hjá Hetti voru það mismunandi leikmenn á ólíkum tímum í leiknum eins að framan er rakið. Nemanja Knezevic var afar drjúgur í sókninni og hirti líka mikilvæg fráköst, þótt heilt yfir tækju gestirnir miklu fleiri fráköst.

Hvað gekk illa?

Höttur átti slakasta kafla leiksins í öðrum leikhluta. Leikmenn liðsins fengu dæmd á sig margar villur, urðu pirraðir og aginn fór úr leik þeirra.

Viðtöl

Pétur Ingvarsson: „Hattarmenn hittu“

Pétur Ingvarsson þjálfari KeflavíkurVísir/Bára

Pétur Ingvarsson, þjálfari Keflavíkur, sagði hittni mótherjanna hafa verið lykilinn að ósigri síns liðs í 120-115 leik gegn Hetti á Egilsstöðum í kvöld. 

„Þeir hittu gríðarlega vel og við náum ekki að jafna það. Ég held að það skapi muninn hér í kvöld,“ sagði Pétur eftir leikinn.

Lengi vel virtist leikaðferð Keflavíkur ganga upp, að sækja hratt og leyfa Hattarmönnum aldrei að stilla upp öflugri vörn. „Meðan þeir hitta svona vel í sókn er erfitt að eiga við þá.“

Þótt fjara tæki undan Keflavík undir lok venjulegs leiktíma og sú þróun héldi áfram í framlengingu kaus Pétur að taka ekki leikhlé heldur treysti því að leikmenn hans leystu úr málunum. 

„Það er engin tölfræðileg fylgni milli þess að taka leikhlé og hlutirnir gangi ekki betur. Stundum treystir maður leikmönnum og það virkaði ekki núna.“

Keflavík lenti í líka í framlengingu í fyrstu umferðinni gegn Álftanesi og vann þar. 

„Ef við ætlum að koma hingað og vinna þá þurfum við að spila betur. Við þurfum að koma með meiri samheldni í vörn og meiri ákefð í sókninni.“

Höttur var yfir eftir fyrsta leikhluta en snéri leiknum sér í vil í þeim næsta. Inn í hann kom fyrirliðinn Halldór Garðar Hermannsson og færði baráttu í Keflavíkurliðið. Pétur sagði Halldór oft ekki fá það hrós sem hann verðskuldi.

„Hans hlutverk í liðinu er að koma upp og sprengja þetta upp, bæði í sókn og vörn. Hann hefur bætt sig mikið í sókn og er með betri varnarmönnum í deildinni. Það er skrýtið að hann fái aldrei tækifæri með landsliðinu. Síðan er þar fullt af gaurum sem eru frábærir sóknarmenn en geta ekkert í vörn og eru alltaf í landsliðinu.“ - Sagði Pétur að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira