Eftir að hafa tapað fyrstu tveimur leikjum sínum undir stjórn Heimis unnu Írar Finna í gær, 1-2. Írska liðið var undir í hálfleik en Liam Scales jafnaði á 57. mínútu. Tveimur mínútum fyrir leikslok skoraði Robbie Brady svo sigurmark Írlands.
Fjölmargir Írar fylgdu sínu liði til Helsinki og Heimir hrósaði stuðningsmönnunum í hástert eftir leikinn í gær.
„Ég hef ekki upplifað þúsund stuðningsmenn á útivelli sem voru eins háværir og fögnuðu eins mikið og þessir. Ég hef aldrei séð svona. Ég elska þetta og ber mikla virðingu fyrir þessu fólki og þessum stuðningsmönnum og þeir eiga að minnsta kosti skilið stórt klapp á bakið og þakkir frá mér því jafnvel áður en við skoruðum markið, þegar við vorum ofan á í leiknum og sóttum, fundum við orkuna úr stúkunni,“ sagði Heimir.
„Okkur fannst þeir vera ánægðir með það sem við vorum að gera jafnvel áður en við skoruðum markið og ekki minnkaði gleðin þegar það kom.“
Næsti leikur Írlands er gegn Grikklandi á sunnudaginn. Grikkir unnu Englendinga á Wembley í gær, 1-2, og eru með fullt hús stiga á toppi riðils 2 í B-deild Þjóðadeildarinnar. Írar eru í 3. sæti riðilsins með þrjú stig.