Innlent

Allir tón­listar­kennararnir til í verk­­fall

Árni Sæberg skrifar
Tónlistarkennsla verður að óbreyttu lögð niður tímabundið á Ísafirði.
Tónlistarkennsla verður að óbreyttu lögð niður tímabundið á Ísafirði. Vísir/Vilhelm

Félagsfólk í Félagi kennara og stjórnenda í tónlistarskólum, sem starfar í Tónlistarskóla Ísafjarðar, samþykkti að boða til verkfalls 29. október næstkomandi, með öllum greiddum atkvæðum. Þar með hafa verkföll verið boðuð í níu skólum.

Í tilkynningu á vef Kennarasambands Íslands segir að atkvæðagreiðslu um boðun verkfalls í Tónlistarskóla Ísafjarðar hafi lokið klukkan 15 í dag. 100 prósent félagsmanna í Félagi kennara og stjórnenda í tónlistarskólum, FT, sem tóku þátt í atkvæðagreiðslunni hafi sagt já við boðun verkfalls. Kjörsókn hafi verið rúmlega 83 prósent.

Verkfall félagsmanna FT sem starfar í Tónlistarskóla Ísafjarðar hefjist 29. október og ljúki 20. desember, hafi samningar ekki náðst.

Eindregin samstaða

Í gær var greint frá því að allir félagsmenn í FG, FL og SÍ, eða 100 prósent, sögðu já við boðun verkfalla og 81 prósent félagsmanna FF og FS sem starfa í Fjölbrautaskóla Suðurlands. 

„Það er því óhætt að segja að eindregin samstaða sé meðal félagsfólks aðildarfélaga KÍ um aðgerðir, þvert á skólastig og skólagerðir,“ segir í tilkynningu.

Fundur á þriðjudag

Verkföll séu áformuð 29. október í níu skólum; fjórum leikskólum, þremur grunnskólum, einum framhaldsskóla og einum tónlistarskóla, hafi samningar ekki náðst.

Ríkissáttasemjari hafi boðað til fundar á þriðjudag og þá mæti viðræðunefnd Kennarasambandsins sem sé skipuð formönnum aðildarfélaganna sjö og formanni KÍ, til fundar með samninganefndum sveitarfélaga og ríkisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×