Fótbolti

Ronaldo á skotskónum og VAR bjargaði Króötum

Smári Jökull Jónsson skrifar
Ronaldo skoraði í leiknum í kvöld.
Ronaldo skoraði í leiknum í kvöld. Vísir/Getty

Cristiano Ronaldo var á meðal markaskorara í 3-1 sigri Portúgals gegn Póllandi. Þá voru Skotar grátlega nálægt því að taka með sér stig úr leiknum gegn Króatíu.

Cristiano Ronaldo var í byrjunarliði Portúgal sem tók á móti Póllandi í Þjóðadeildinni í kvöld. Portúgal var búið að vinna báða leiki sína í riðlinum fram að leiknum í kvöld og þeir komust í forystu á 25. mínútu þegar Bernando Silva skoraði.

Ronaldo bætti öðru marki við á 37. mínútu en þetta er mark númer þrjátíu og þrjú hjá honum á tímabilinu í leikjum með félags- og landsliði. Þá er hann búinn að skora samtals 906 mörk á ferlinum sem er magnað afrek.

Í síðari hálfleik minnkaði Piotr Zielenski muninn fyrir Pólverja á 78. mínútu en sjálfsmark Jan Bednarek tíu mínútum síðar innsiglaði sigurinn fyrir Portúgal.

Grátlegur endir fyrir Skota

Hinn leikur riðilsins var leikinn fyrr í dag. Þar mættust Króatar og Skotar í Zagreb og það voru Skotar sem náðu forystunni á 33. mínútu þegar Ryan Christie skoraði en Króatar sneru leiknum sér í vil með mörkum frá Igor Matanovic og Andrej Kramaric. 

Þegar komið var framyfir uppgefinn uppbótartíma tókst Che Adams síðan að jafna metin fyrir Skota sem fögnuðu ógarlega. Markið var hins vegar skoðað í VAR og þar sást að Adams var rangstæður í aðdraganda marksins og það því réttilega dæmt af. Gríðarlega svekkjandi fyrir Skota en leikurinn var flautaður af strax í kjölfarið.

Portúgal er í efsta sæti riðilsins með níu stig eftir þrjá leiki og Króatar eru í öðru sæti þremur stigum á eftir. Pólland er í þriðja sæti með þrjú stig en Skotar án stiga á botni riðilsin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×