Innlent

Hanna Rún og Nikita tryggðu Ís­landi brons á Evrópu­meistara­mótinu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Hanna Rún og Nikita tryggðu Íslandi brons.
Hanna Rún og Nikita tryggðu Íslandi brons. Dansíþróttasamband Íslands

Hjónin Hanna Rún Bazev Óladóttir og Nikita Bazev tryggðu sér brons í latín dönsum í dag, í flokki atvinnumanna á Evrópumeistaramóti World DanceSport Federation í Leipzig.

Frá þessu er greint í tilkynningu frá Dansíþróttasambandi Íslands.

Hanna Rún og Nikita hafa náð góðum árangri í íþróttinni á síðastliðnum árum og urðu meðal annars fyrst Íslendinga til að komast á heimsleikanna í suður-amerískum dönsum árið 2022.

Þau höfðu þá verði í pásu um nokkurt skeið, auk þess sem Hanna Rún lamaðist á fæti í kjölfar mænurótardeyfingu þegar hún átti dóttur sína árið 2020.

Hanna Rún og Nikita ræddu við Vísi árið 2022 og sögðu meðal annars frá því hvernig væri að vinna saman.

„Það er auðvitað gaman að geta ferðast og honum um allan heim en þetta getur verið erfitt. Dagarnir eru misjafnir og maður er ekki alltaf vel upplagður. Hann vill gera þetta svona, og ég vill gera þetta svona og þá þurfum við að fara einhvern milliveg og svo þurfum við að fara heim og elda matinn. Ef það kemur upp einhver sprenging í danssalnum þá þurfum við að skilja það eftir í salnum og þegar heim er komið erum við fjölskylda og við þurfum að takast á við þetta seinna,“ sagði Hanna Rún.

„Dansinn er dansinn og heimilið er heimilið. Einkalífið og vinnan og dansinn er tvennt aðskilið. Við blöndum þessu ekki og erum nógu gömul til að láta það ganga,“ sagði Nikita.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×