Skoðun

Þegar ballið er búið

Gunnar Hólmsteinn Ársælsson skrifar

Þegar farið er út að skemmta sér, til dæmis á dansleik þá er oft mikið stuð, „maður er manns gaman,“ segir máltækið. Allir í góðum gír og bara fjör.

En stundum bregða menn og konur einnig á það ráð að fara í „eftirpartí“ þegar dansleik er lokið.

Það er oftar en ekki slæm ákvörðun og andrúmsloftið í slíkum partíum oft fljótt að súrna allverulega. Þá hefði bara eins verið gott að hætta, þegar ballið var búið og allt fjörið um garð gengið.

Mér datt í hug þetta hugtak, „eftirpartí“ í sambandi við sambúðina á stjórnarheimilinu um þessar mundir. Henni verður kannski best lýst sem „slæmu eftirpartíi“, allir gjörsamlega búnir á því, en einhverjir reyna að halda uppi fjörinu af veikum mætti.

Oftar en ekki eru viðkomandi púaðir niður; ..„æi farðu nú þegja“...„hætt‘issu maður“...eða eitthvað álíka.

Stemmningin orðin verulega súr og allir bara almennt í miklu óstuði. Alger andstæða við það sem gerðist fyrr um kvöldið.

Án þess að hafa þetta lengra, þá er ballið greinilega búið hjá ríkisstjórninni og það besta sem hún gæti gert er að slútta þessu bara og lofta súru eftirpartís-stemmningunni út. Og síðan fara heim og hvíla sig.

Eða ætla menn virkilega að halda þessu súra ,,eftirpartíi“ til streitu næstu mánuðina?

Er ekki bara best að kjósa?

Höfundur er kjósandi.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×