„Ég hef bara aldrei upplifað jafn sterk viðbrögð við kvikmynd hjá okkur,“ segir Hrönn Sveinsdóttir framkvæmdastjóri Bíó Paradísar í samtali við Vísi. Fréttastofu barst ábending um að liðið hefði yfir tvo bíógesti á sýningu myndarinnar um helgina og kastaði annar þeirra upp.
Hrönn útskýrir að í myndinni geri persóna Demi Moore samning við djöfulinn til að viðhalda æskunni. Þar fer hún með hlutverk stórstjörnu sem ákveður þegar frægðarsólin hnígur að leita að dularfullu efni á svörtum markaði sem mun breyta henni í yngri útgáfu af sjálfri sér. Í myndinni má sjá mannslíkamann í ýmsum ljótum, óþægilegum og hrollvekjandi aðstæðum.
Allir í viðbragðsstöðu
„Myndin verður að þessu leyti alltaf verri og verri eftir því sem líður á og endirinn er hreinlega, bara svolítið mikið. Ég sá hana sjálf á Cannes og þar voru margir sem hreinlega gátu þetta ekki og löbbuðu einfaldlega út,“ útskýrir Hrönn. Í Bíó Paradís sé mikið um að fólk falli í yfirlið og þá hafi það einnig gerst á kvikmyndahátíðinni RIFF þegar bíómyndin var sýnd þar.
„Og nú er þetta að gerast hjá okkur, það hafa verið uppákomur og nokkur yfirlið á sýningunum okkar. Við höfum ekki upplifað það áður. En sem betur fer er staffið okkar svo frábært, við erum komin með sérstaka verkferla á sýningum þar sem staffið okkar er bara í viðbragðsstöðu og veitir aðstoð, er með sjúkrakitt og ælupoka tilbúna fyrir þá sem líður illa á myndinni.“
Hrönn segir ljóst að The Substance sé mynd sem fólk hreinlega verði að sjá í bíó. „Boðskapurinn er svipaður og í sögunni af Dorian Grey, passaðu þig á því hvers þú óskar eftir. Það endar ekki vel fyrir þá sem sækjast eftir eilífri æsku,“ segir Hrönn létt í bragði.
Hún bætir því við í gríni að hún hafi íhugað að blása til sérstakrar frumsýningar fyrir áhrifavalda á myndinni, gefa jafnvel einum heppnum varafyllingar en hætt við þegar hún hafi séð hvað það kostar. „Ég held að þetta sé mjög góð forvarnarmynd. Myndin talar inn í okkar samtíma á mjög óhugnalegan hátt.“