Á alþjóðlegum minningardegi þeirra barna sem látist hafa á meðgöngu var opnuð nýinnréttuð stofa sem verður athvarf fyrir þá foreldra sem missa barn á meðgöngu. Guðlaug Erla Vilhjálmsdóttir, yfirljósmóðir á Kvennadeild segist vona að sem fæstir þurfi að nota stofuna.
„En fyrir fólk sem eru í þeirri stöðu að hafa misst barn þá skiptir þetta miklu máli að hafa góða aðstöðu í staðinn fyrir að vera inni á pínulítilli fæðingastofu hérna frammi á gangi þar sem ekki er mikil aðstaða til að taka á móti aðstandendum og slíkt.“
Styrktarfélagið Gleym mér ei, sem er til stuðnings við foreldra sem missa á meðgöngu, bauðst til að innrétta stofuna.
„Við höfum allar þurft að nýta okkur svona aðstöðu þannig að við hugsuðum strax að þetta þyrfti að vera rólegt og fallegt umhverfi þar sem þú getur verið því það eru margar fjölskyldur sem dvelja hérna jafnvel í þrjá til fjóra daga og það þarf að vera umhverfi sem tekur utan um fólkið. Ekki bara læknatæki. Okkur fannst nauðsynlegt að það yrði heimilislegt,“ segir Kolbrún Tómasdóttir, framkvæmdastjóri styrktarfélagsins Gleym mér ei.

Þessi huggulega stofa hefur fengið nafnið bjarneyjarstofa, í höfuðið á Bjarneyju Hrafnberg, ljósmóður, sem hefur tekið við erfiðum og andvana fæðingum í yfir þrjátíu ár og stutt ríkulega við foreldra í gegnum áfallið.
„Ótrúlega margir höfðu samband við okkur og sögðu að þetta væri rétta nafnið á stofunni,“ segir Kolbrún.
Bjarney, hefur þetta ekki mikla þýðingu fyrir þig?
„Jú, að sjálfsögðu. Mjög mikla þýðingu. Þetta hefur það, vissulega,“ sagði Bjarney sem var það djúpt snortin yfir þessum heiðri að hún var því sem næst orðlaus.
Gleym mér ei heldur sína árlegu minningarstund sem fer fram í safnaðarheimili Kópavogs klukkan 20:00.