Sara er aðeins sextán ára gömul en skoraði sautján stig í naumu tapi á móti Tindastóli.
Hún bætti sitt persónulega met um átta stig en hún skoraði mest níu stig á sínu fyrsta tímabili í fyrra.
Sara er dóttir goðsagnarinnar Loga Gunnarssonar og það er athyglisvert að bera þessa frammistöðu við það þegar Logi skoraði fyrst meira en fimmtán stig í efstu deild.
Logi náði því í leik með Njarðvík á móti Þór frá Akureyri í febrúar 1998. Logi skoraði 19 stig á 25 mínútum í þeim leik en hann hitti úr 9 af 12 skotum sínum.
Logi var 16 ára og 156 daga í þessum leik á móti Þórsurum en Sara var aðeins 65 dögum eldri í gær.
Logi skoraði reyndar aðeins einn þrist í leiknum en setti niður átta af tíu tveggja stiga skotum sínum.
Sara skoraði 17 stig á tæpum 26 mínútum í gær. Hún hitti úr 7 af 10 skotum sínum þar af öllum fimm tveggja stiga skotunum. Hún skoraði tvo þrista og Njarðvík vann þær mínútur sem hún spilaði með tólf stigum.