Lífið

Elskar að vera á ní­ræðis­aldri og eiga ung­barn

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Al Pacino á góðri stundu með vini sínum og kollega Robert De Niro.
Al Pacino á góðri stundu með vini sínum og kollega Robert De Niro. EPA-EFE/ANDY RAIN

Bandaríski stórleikarinn Al Pacino segist elska að vera nýbakaður pabbi. Hann er 84 ára gamall og eignaðist son í júní í fyrra og vonast að endurminningar sínar muni koma syni sínum vel.

Leikarinn ræddi föðurhlutverkið við breska ríkisútvarpið. Hann er reynslubolti í hlutverkinu en fyrir á hann þrjú börn, eitt á fertugsaldri og tvö á þrítugsaldri. Sonur hans heitir Roman en hann eignaðist hann með kvikmyndaframleiðandanum Noor Alfallah. Þau eru skilin en annast bæði barnið þó leikarinn segist oftast hitta hann í myndbandssímtölum.

„Mér finnst allt sem hann gerir áhugavert. Við tölum saman, ég spila á harmonikkuna fyrir hann í þessu vídjódæmi og við eigum í þessum tengslum. Þannig að þetta er gaman,“ segir leikarinn í viðtali við BBC.

Hann hefur nú loksins gefið út endurminningar sínar í bók sem ber nafnið Sonny Boy. Pacino segist telja að hann hafi loksins eitthvað að segja nú þegar hann er kominn á níræðisaldur og því hafi hann ákveðið að slá til.

Bókin sé hans trygging fyrir því að sonur hans muni koma til með að þekkja hann. „Ég vil vera til staðar fyrir barnið og ég vona að ég verði það. Ég vona að ég verði heilbrigður og að hann muni þekkja pabba sinn, að sjálfsögðu.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×