Skoðun

Inn­flytj­endur og ís­lenska

Runólfur Ágústsson skrifar

Um 20% núverandi Íslendinga eru fæddir erlendis. Í umræðu síðustu daga og vikna er allt þetta fólk of oft sett undir sama hatt.

Langflestir innflytjenda er fólk sem hingað hefur flutt til vinnu, annað hvort á grundvelli EES samningsins eða sem sérfræðingar annars staðar að. Þetta er fólkið sem stendur undir lífskjörum okkar og hagvexti. Þetta er fólkið sem heldur hjúkrunarheimilunum okkar gangandi, spítölum, leikskólum, byggingariðnaði og ferðaþjónustu. Það er misskilningur að þetta fólk sinni einungis láglaunastörfum, þeirra á meðal eru fjölmargir hátt launaðir sérfræðingar sem vinna við þekkingar-, nýsköpunar- og frumkvöðlafyrirtæki okkar. Án þeirra væri CCP eða Alvotech ekki til. Fólkið sem vinnur þessi störf er langstærsti hópur innflytjenda á Íslandi og þau standa undir velferð okkar og velsæld.

Lítill hluti innflytjenda en sá sem þarf lang mesta þjónustu, innleiðingu og aðlögun eru síðan þeir sem koma hingað á eigin vegum og sækja um alþjóðlega vernd. Flestir þeirra hafa undanfarin ár komið frá Úkraínu og Venúsúela, en verulega hefur dregið úr straumi fólks af þessu þjóðerni hingað til lands. Þá standa eftir þeir sem „banka upp á“ á landamærunum sem hafa undanfarin misseri að meirihluta verið karlmenn. Hættum að fylla kerfin okkar, hvað varðar móttöku flóttafólks, af ungum hreyfanlegum karlmönnum sem illa aðlagast að íslensku samfélagi en setjum þess í stað áhersluna á kvótaflóttafólk og það að sækja fólk í neyð, konur, börn og jaðarsetta hópa. Skilgreinum þann fjölda sem við getum árlega sinnt út frá innviðum og getu til að sinna þessu viðkvæma stríðshrjáða fólki.

Gerum líka þær kröfur til þeirra sem hingað koma að þau aðlagist gildum okkar samfélags, lýðræði, trúfrelsi og kvenfrelsi, auk þess að styðja við íslenskunám þeirra og inngildingu. Þannig varðveitum við menningu okkar og tungu. Heildarkostnaður við móttöku flóttafólks í ár er áætlaður um 16 milljarðar króna. Nýtum það sem sparast með skilvirkari innflytjendastefnu til íslenskunáms fyrir útlendinga. Þar er skólakerfið að bregðast börnum innflytjenda sem þurfa eðlilega meiri tíma til að læra íslensku en íslenskumælandi börn. Eftir hrun millifærðum við milljarða króna úr bótakerfinu yfir í skólakerfið með því að kosta nám ungs fólks á atvinnuleysisbótum sem fékk þess í stað námslán. Notum hér sömu aðferðafræðina, drögum úr kostnaði við móttöku (og brottvísun) hælisleitenda og nýtum þá fjármuni til að kenna börnum innflytjenda íslensku.

Höfundur er framkvæmdastjóri.




Skoðun

Sjá meira


×