Daily Mail greinir frá en líkt og fram hefur komið lést Payne í fyrradag eftir að hafa fallið af svölum þriðju hæðar hótels í argentísku höfuðborginni Buenos Aires. Hann var einungis 31 árs og var líkt og alþjóð veit einn liðsmanna strákasveitarinnar One Direction sem naut gríðarlegra vinsælda árin 2010 til 2016 þegar sveitin hætti.
Án umboðs og án útgáfu
Söngvarinn skrifaði undir samning við Capital Records í eigu Universal árið 2016, þá einungis 22 ára gamall. Payne gaf út eina plötu undir eigin nafni plötuna LP1 árið 2019. Fram kemur í umfjöllun miðilsins að forsvarsmenn Universal hafi ákveðið að fresta útgáfu seinni plötu hans áður en ákveðið var að slíta samningi hans. Payne gaf fyrr á árinu út lagið Teardrops.
Þá segir einnig í umfjöllun miðilsins að umboðsmaður hans hafi sagt upp fyrr í mánuðinum. Ástæðan eru málaferli fyrrverandi eiginkonu hans Maya Henry á hendur honum vegna áreitis en hún sagði hann stöðugt vera að reyna að ná sambandi við sig í hennar óþökk.
Daily Mail hefur eftir heimildarmönnum sem sagðir eru nánir söngvaranum að hann hafi verið á slæmum stað. Eins og fram hefur komið var Payne sagður hafa látið öllum illum látum á hótelherberginu og verið undir miklum áhrifum vímuefna og áfengis áður en hann lést. Bæði útgáfufyrirtækin Universal og Capital Records hafa minnst söngvarans á samfélagsmiðlum.