Upp­gjörið: Breiða­blik - Stjarnan 2-1 | Draumaúrslitaleikurinn verður að veru­leika

Andri Már Eggertsson skrifar
Breiðablik vann 2-1 sigur gegn Stjörnunni
Breiðablik vann 2-1 sigur gegn Stjörnunni Vísir/Viktor Freyr

Breiðablik vann 2-1 sigur gegn Stjörnunni og draumaúrslitaleikurinn gegn Víkingi í lokaumferðinni verður að veruleika. Höskuldur Gunnlaugsson skoraði sigurmarkið og tryggði heimamönnum stigin þrjú.

Leikurinn fór rólega af stað. Það var mikið undir fyrir bæði lið og þróun leiksins litaðist af því. Höskuldur Gunnlaugsson, fyrirliði Breiðabliks, fékk dauðafæri til þess að koma heimamönnum yfir. Höskuldur vann boltann úr öftustu línu Stjörnunnar og átti skot fyrir utan teig sem fór í stöngina.

Viktor Örn Margeirsson með boltannVísir/Viktor Freyr

Emil Atlason átti bestu færi Stjörnunnar í fyrri hálfleik. Gestirnir voru duglegir að leita af Emil í loftinu en fyrst átti Emil skalla þar sem boltinn fór rétt framhjá og stuttu seinna átti hann skalla þar sem boltinn skoppaði af slánni.

Fleiri urðu færin ekki og staðan í hálfleik var markalaus.

Ísak Snær Þorvaldsson, leikmaður Breiðabliks, í leik dagsinsVísir/Viktor Freyr

Það munaði engu að Stjarnan hefði komist yfir í upphafi síðari hálfleiks. Hilmar Árni Halldórsson átti hornspyrnu sem Guðmundur Kristjánsson skallaði á markið en Anton Ari Einarsson varði frábærlega frá honum.

Heimamenn brutu ísinn á 64. mínútu. Kristinn Jónsson tók aukaspyrnu þar sem hann kom boltanum fyrir markið og þar átti Ísak Snær Þorvaldsson skalla og eftir klafs náði Viktor Örn Margeirsson að pota boltanum inn.

Örvar Logi Örvarsson, leikmaður Stjörnunnar, í leik dagsinsVísir/Viktor Freyr

Tólf mínútum síðar jafnaði Heiðar Ægisson. Boltinn datt beint fyrir hann hægra megin í teignum og hann lét vaða á markið og þrátt fyrir að skotið hafi verið nokkuð beint á markið rataði boltinn inn.

Það var svo komið að fyrirliðanum á 87. mínútu. Kristinn Jónsson renndi boltanum á Höskuld sem átti skot sem fór í varnarmann og endaði í markinu.

Fleiri urðu mörkin ekki og Breiðablik vann 2-1 sigur.

Stuðningsmenn Blika fögnuðu sigriVísir/Viktor Freyr

Atvik leiksins

Sigurmark Höskulds var atvik leiksins. Fyrirliðinn fékk sendingu við teiginn og átti got skot sem fór af varnarmanni og í markið. Mark Höskulds slökkti á öllu stressi í Blikum um að Stjarnan myndi komast yfir en gestirnir fengu færi í stöðunni 1-1 til þess að komast yfir.

Stjörnur og skúrkar

Anton Ari Einarsson, markmaður Breiðabliks, á heima í báðum flokkunum sem stjarna og skúrkur. Anton varði tvisvar virkilega vel í síðari hálfleik og hélt Blikum inni í leiknum. Anton hefði hins vegar átt að gera betur í marki Stjörnunnar þar sem skot Heiðars Ægissonar var nokkuð beint á markið.

Kristinn Jónsson átti einnig mikinn þátt í því að Stjarnan skoraði þar sem hann rann ansi klaufalega þegar boltinn var á leiðinni til hans en í staðinn fór boltinn til Heiðars sem skoraði. Eins og Anton á Kristinn heima í báðum flokkum þar sem hann átti aukaspyrnuna sem varð að fyrsta marki Blika og átti stoðsendinguna á Höskuld.

Það gerðist mikið í kringum Emil Atlason sem óð í færum en tókst ekki að nýta þau og ef hann hefði verið á deginum sínum hefði Stjarnan sennilega fengið eitthvað út úr þessum leik.

Dómarinn [8]

Jóhann Ingi Jónsson dæmdi leik kvöldsins. Leikurinn var vel dæmdur og Jóhann getur verið ánægður með sína frammistöðu. Jóhann lyfti tvisvar upp gula spjaldinu en annars fór lítið fyrir honum.

Stemning og umgjörð

Stuðningsmenn Blika mættu pirraðir og stressaðir á Kópavogsvöll í ljósi þess að Víkingur hafði unnið sinn leik á dramatískan hátt þar sem löglegt mark var tekið af ÍA. Úrslitin þýddu að Blikar máttu ekki tapa gegn Stjörnunni því þá væru Víkingar orðnir Íslandsmeistarar þar sem liðið er með töluvert betri markatölu en Blikar.

Í hálfleik fengu krakkar sem gripu bolta að fara inn á völlinn og taka þátt í miðjuleik og freista þess að vinna gjafabréf á Dominos sem er alltaf stemning.

Stuðningsmenn Víkings voru mættir með Víkingsfána í stúkuna og í þeirri von um að Blikar myndu tapa.

Jökull: Skrítið að mæta liði sem er að berjast um titilinn og leggst til baka

 

Jökull var svekktur eftir leikVísir/Diego

Jökull Ingason Elísabetarson, var svekktur eftir 2-1 tap gegn Breiðabliki á útivelli. 

„Þeir nýttu færin sín helvíti vel. Skotin þeirra voru mest fyrir utan teig. Við hefðum átt að koma í veg fyrir bæði mörkin og við fengum fleiri færi sem við nýttum ekki,“ sagði Jökull og hélt áfram.

„Mér fannst við vera með fulla stjórn á þessum leik. Það var mjög skrítið að koma á Kópavogsvöll á móti liði sem er að berjast um titilinn og leggst til baka og reynir ekki að stjórna leiknum. Mér fannst það mjög skrítið nema þeir hefðu ætlað að gera það og það hafi ekki tekist.“

Gestirnir fengu tvö góð færi í stöðunni 0-0 til að komast yfir en Anton Ari Einarsson, markmaður Breiðabliks, varði vel.

„Það var vel gert hjá honum og stundum er þetta bara svona og það er allt í lagi. Það er rosalegur stígandi í liðinu og við höldum bara áfram,“ sagði Jökull að lokum. 

 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira