Erlent

Bar fram sam­særis­kenningar á fyrsta kosningafundinum

Samúel Karl Ólason skrifar
Elon Musk á sviði í Pennsylvaníu í gær.
Elon Musk á sviði í Pennsylvaníu í gær. AP/Matt Rourke

Elon Musk, einn auðugasti maður heims, bar í gær upp gamlar og ósannar samsæriskenningar um kosningasvik í forsetakosningunum 2020. Það gerði hann á kosningafundi fyrir Donald Trump í Pennsylvaníu og gaf hann meðal annars til kynna að kosningavélar Dominion Voting Systems hefðu verið notuð til kosningasvika.

Dominion framleiðir kosningavélar sem eru notaðar víða í Bandaríkjunum en margar samsæriskenningar beindust að fyrirtækinu eftir kosningarnar 2020 og höfðaði fyrirtækið mál gegn ýmsu fólki og fjölmiðlum sem dreifðu þeim.

Margar af ásökunum um kosningasvindl sem beindust að Dominion sneru meðal annars að því að vélar fyrirtækisins hefðu verið forritaðar til að breyta atkvæðum sem Trump fékk í atkvæði til Bidens.

Dreifing þessarar samsæriskenninga kostaði Fox News meira en hundrað milljarða króna, eftir að Dominion höfðaði mál gegn fjölmiðlafyrirtækinu. Dómskjöl sýndu fram á að starfsmenn og yfirmenn Fox vissu að kosningasvindl hefði ekki átt sér stað en héldu því samt ítrekað á lofti.

Bandamenn Trumps höfðuðu fjölda mála vegna meints kosningasvindls 2020 en nánast öllum þeirra var vísað frá og ekkert þeirra skilaði árangri. Rannsóknir hafa ítrekað sýnt fram á að umfangsmikið kosningasvindl átti sér ekki stað í kosningunum. Heilt yfir eru kosningasvik mjög sjaldgæf í Bandaríkjunum, samkvæmt sérfræðingum, og yfirleitt þegar það á sér stað kemst upp um það.

Á áðurnefndum kosningafundi í skóla í úthverfi Philadeilhia í gærkvöldi, sem var fyrsti kosningafundurinn þar sem Musk var einn á sviði, nefndi auðjöfurinn nokkrar samsæriskenningar á sviði, þegar maður í salnum spurði hann út í kosningasvindl.

Þá hélt Musk því fram að þegar kæmi að utankjörfundaratkvæðum væri mjög erfitt að sanna kosningasvindl, og að kjósendur þyrftu ekki að sanna að þeir væru ríkisborgarar Bandaríkjanna. Hvorugt er rétt.

„Það voru nokkuð undarlegir hlutir sem gerðust, sem voru tölfræðilega ótrúlega ólíklegir,“ sagði Musk, samkvæmt frétt CNN. Þá nefndi hann vélar Dominion og hélt því fram að þær hefðu eingöngu verið notaðar í Philadelphia og í Maricopa-sýslu í Arizona og í mjög fáum öðrum sýslum Bandaríkjanna.

„Virðist það ekki heljarinnar tilviljun?“ spurði Musk.

Í yfirlýsingu frá Dominion segir að fyrirtækið hafi ekki gert út vélar í Philadelphia og þar að auki sé alltaf pappírsslóð með atkvæðum sem greidd eru gegnum vélar fyrirtækisins. Talningar og rannsóknir hafi ítrekað sýnt fram á að vélarnar skili réttum niðurstöðum.

„Þetta eru staðreyndir.“

Reuters hefur einnig sagt frá því að vélar Dominion voru notaðar í að minnsta kosti 24 ríkjum Bandaríkjanna árið 2020.

Þá hafa embættismenn úr báðum flokkum í bæði Pennnsylvaníu og Arizona ítrekað sagt að niðurstöður kosninganna í ríkjunum árið 2020 hafi verið réttar. Joe Biden sigraði Trump í báðum.

Samkvæmt frétt NBC News talaði Musk einnig um að eingöngu ætti að notast við kjörseðla úr pappír í Bandaríkjunum. Tölvum væri ekki treystandi.

Á öðrum tímapunkti hélt Musk því fram að Kamölu Harris, mótframbjóðanda Trumps, væri stjórnað úr skuggunum af óþekktum hópi fólks.


Tengdar fréttir

Lagði Trump til 10 milljarða króna á þremur mánuðum

Auðjöfurinn Elon Musk gaf 75 milljónir dala, jafnvirði rúmlega 10 milljarða króna, í kosningasjóðinn America PAC á aðeins þremur mánuðum, sem fjármagnar aðgerðir til að fá kjósendur Donald Trump á kjörstað í barátturíkjunum sjö.

Kosningafundur breyttist í undarlegt diskótek

Kosningafundur Donalds Trump, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna, í Pennsylvaníu í gær breyttist í einhverskonar diskótek eftir að huga þurfti að tveimur áhorfendum í salnum. Í stað þess að svara spurningum úr sal, eins og til stóð, lét Trump spila tónlist í tæpar fjörutíu mínútur á meðan hann stóð á sviðinu og vaggaði sér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×