Enski boltinn

Everton vann og endurkomusigrar hjá Leicester og Villa

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jamie Vardy fagnar marki sínu fyrir Leicester City í dag en hann fiskaði þá bæði vítaspyrnu og mann af velli með rautt spjald.
Jamie Vardy fagnar marki sínu fyrir Leicester City í dag en hann fiskaði þá bæði vítaspyrnu og mann af velli með rautt spjald. Geyty/Dan Istitene/

Everton, Aston Villa, Leicester og Brighton fögnuðu öll sigri í ensku úrvalsdeildinni í dag.

Southampton kom í 2-0 á móti Leicester og það stefndi í fyrsta sigur nýliðanna á tímabilinu en gestirnir tryggðu sér sigur með þremur mörkum á síðasta hálftímanum.

Cameron Archer og Joe Aribo komu Southampton í 2-0 í fyrri hálfleik. Facundo Buonanotte minnkaði muninn á 64. mínútu og Jamie Vardy jafnaði metin úr víti á 74. mínútu. Vardy fiskaði vítið og Ryan Fraser af velli með rautt spjald.

Það var síðan Jordan Ayew sem skoraði sigurmarkið á áttundu mínútu í uppbótatíma.

Southamtpon er því áfram á botninum með aðeins eitt stig en Leicester er komið með níu stig.

Þetta er farið að líta betur út hjá Everton sem vann 2-0 útisigur á nýliðum Ipswich Town. Iliman Ndiaye skoraði fyrra markið á 17. mínútu og Michael Keane seinna markið á 40 mínútu. Everton fékk ekki stig í fyrstu fjórum leikjum sínum en hefur náð í átta stig í síðustu fjórum leikjum.

Danny Welbeck tryggði Brighton & Hove Albion 1-0 útisigur á Newcastle en eina markið kom á 35. mínútu. Newcastle sótti og sótti en fékk ekkert út úr leiknum. Brighton er í fimmta sæti.

Raul Jiménez kom Fulham í 1-0 á móti Aston Villa strax á 5. mínútu en Villa menn svöruðu með þremur mörkum og unnu 3-1 útisigur.

Fulham fékk vítaspyrnu í stöðunni 1-1 en Andreas Pereira lét Emiliano Martinez verja frá sér vítið.

Morgan Rogers jafnaði metin á 9. mínútu en mörk frá Ollie Watkins á 59. mínútu og sjálfsmark frá Issa Diop tíu mínútum síðar tryggði Villa sigurinn. Aston Villa er í fjórða sæti með jafnmörg stig og Arsenal sem á leik inni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×