Körfubolti

Grinda­vík og Njarð­vík örugg­lega á­fram

Siggeir Ævarsson skrifar
Jason Gigliotti átti náðugan dag í Vesturbænum
Jason Gigliotti átti náðugan dag í Vesturbænum Vísir/Anton Brink

Tveimur leikjum er lokið í 32-liða úrslitum VÍS bikars karla í körfubolta. Úrvalsdeildarlið Grindavíkur og Njarðvíkur eru bæði komin áfram eftir nokkuð þægilega sigra gegn KR-B og Ármanni.

Grindavíkingar sóttu KR-b heim á Meistaravelli en b-lið KR, sem leikur í 2. deild, er aðallega skipað gömlum KR kempum. Má þar nefna Matthías Orra Sigurðsson, Helga Má Magnússon, Finn Atla Magnússon og auðvitað Grindvíkinginn Þorstein Finnbogason.

Grindvíkingar skoraðu 32 stig gegn ellefu í fyrsta leikhluta og voru úrslit leiksins þar með nokkurn veginn ráðin en lokatölur urðu 69-93. 

Gestirnir rúlluðu á öllum sínum leikmönnum, gáfu lykilleikmönnum hvíld en stigahæstur Grindvíkinga var Björgvin Hafþór Ríkharðsson með 15 stig og tólf fráköst og Nökkvi Már Nökkvason skoraði 14. Stigahæstur í liði KR var Pálmi Freyr Sigurgeirsson með 17 stig.

Í Laugardalshöllinni tók 1. deildar lið Ármanns á móti Njarðvíkingum og var það ójafn leikur líkt og á Meistaravöllum. Njarðvíkingar tóku lífinu með ró, rúlluðu á öllum leikmönnum og unnu að lokum öruggan 84-116 sigur. 

Khalil Shabazz var stigahæstur á vellinum með 27 stig og Mario Matasovic skoraði 24 og bætti við tíu fráköstum. Stigahæstur Ármenninga var Arnaldur Grímsson með 19 stig og sjö fráköst.

Síðasti leikur kvöldsins er svo úrvalsdeildarslagur þar sem ÍR tekur á móti Vali og hefst sá leikur núna klukkan 19:15.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×