Íslenski boltinn

Sjáðu boxið þar sem Arnar tekur út bann í úr­­slita­­leiknum: „Þetta er erfitt“

Aron Guðmundsson skrifar
Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings Reykjavíkur, sýndi okkur boxið víðfræga sem hann mun halda til í þegar að Víkingur og Breiðablik etja kappi í hreinum úrslitaleik um Íslandsmeistaratitilinn á Víkingsvelli á sunnudaginn næstkomandi. Arnar tekur út leikbann í leiknum.
Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings Reykjavíkur, sýndi okkur boxið víðfræga sem hann mun halda til í þegar að Víkingur og Breiðablik etja kappi í hreinum úrslitaleik um Íslandsmeistaratitilinn á Víkingsvelli á sunnudaginn næstkomandi. Arnar tekur út leikbann í leiknum. Vísir

Arnar Gunn­laugs­son, þjálfari Víkings Reykja­víkur, mun ekki geta hvatt sína menn á­fram frá hliðar­línunni í úr­slita­leik Bestu deildarinnar gegn Breiða­bliki um komandi helgi. Þess í stað verður hann í boxi í stúku Víkings­vallar og tekur út leik­bann. Við ræddum við Arnar og litum við í boxinu fræga.

Eftir að hafa fagnað sigur­marki Víkings í dramatískum 4-3 sigri gegn ÍA á dögunum inni­lega fékk Arnar að líta gula spjaldið kom fljótt í ljós að hann hefði safnað fjórum gulum spjöldum og væri þar með kominn í leik­bann sem kemur á versta tíma. Arnar, sem hafði ekki hug­mynd um það að eitt gult spjald til við­bótar þýddi leik­bann fyrir hann, verður í banni í sjálfum úr­slita­leiknum um Ís­lands­meistara­titilinn gegn Breiða­bliki á sunnu­daginn kemur.

Þetta verður fimmti leikurinn á yfir­standandi tíma­bili þar sem að Arnar tekur út leik­bann. Hingað til í heima­leikjum Víkinga þar sem að það hefur verið raunin hefur Arnar haldið til í boxi í stúkunni fyrir miðju vallarins. Box sem væri kannski hægt að kalla frægasta box landsins og í inn­slaginu hér fyrir neðan fer Arnar með okkur í boxið og við tökum á honum stöðuna.

Allt annað líf

„Ég er ekki að djóka þegar að ég segi að við höfum spáð í því,“ svarar Arnar þegar að ég minnist á gömul um­mæli hans í við­tali okkar á milli fyrr á tíma­bilinu þar sem að hann lýsti að­dáun sinni á því sjónar­horni sem hann hefur af leikjum Víkinga úr boxinu og mögu­leikanum á því að stýra liði sínu þaðan. 

Allardyce í símanum uppi í stúku sem stjóri Blackburn Rovers.Vísir/Getty

„Kannski sér í lagi í fyrri hálf­leik í þeim leikjum sem við spilum. Ég veit ekki hvort að menn muna eftir því úr ensku deildinni en stjórar eins og Sam Allar­dyce og fleiri áttu það til að vera upp í stúku með for­láta síma við hlið sér og gátu í gegnum hann verið í sam­bandi við sitt teymi á vara­manna­bekknum.

Þar sem að Arnar tekur út leik­bann má hann ekki vera í sam­skiptum við teymi sitt á vara­manna­bekknum en hafandi saman­burðinn á því að sjá leik sinna manna frá hliðar­línunni og svo úr stúkunni er staða hans ljós.

„Maður sér ekki rass­gat frá hliðar­línunni. Oft heldurðu að á­kveðnir hlutir inn á vellinum séu að eiga sér stað út frá ein­hverju á­kveðnu en svo kemurðu inn í klefa í hálf­leik, sérð klippur frá fyrri hálf­leiknum og á­stæðan fyrir þeim er bara allt önnur en þú hélst. Það yrðu þó langar boð­leiðir úr boxinu á vara­manna­bekkinn. Yrði erfitt að fram­kvæma. En klár­lega ættu þjálfarar að vera í svona stöðu. Það er ein­mitt á­stæðan fyrir því að mörg lið eru að fá leik­grein­endur til liðs við sig. Þeir eru í þessar stöðu með tækja­búnað og þeir hafa sam­skipti við bekkinn. Þetta er allt annað út­sýni. Allt annað líf.“

Nagandi neglur í níutíu mínútur

Þau sem hafa þó fylgst með Arnari á hliðar­línunni í leikjum Víkings taka þó eftir því að hann er ansi líf­legur og er gjarn á að nýta allan boð­vanginn. Á erfitt með að sitja bara á bekknum og fylgjast með. Boxið sem hann mun húka í í stúkunni á Víkings­velli rétt rúmar hins vegar bara tvær mann­eskjur og svo vill til að það verður full­skipað í úr­slita­leiknum á sunnu­daginn þar sem að Arnar og Sverrir vallar­þulur munu fylgjast með leiknum saman. Arnar getur því strunsað um boxið eins og hann gerir í boð­vanginum.

„Þetta er alveg hræði­legt upp á það að gera. Maður er bara að horfa á leikinn. Svo er ég með tölvu hérna á borðinu fyrir framan mig því að ég vil líka horfa á út­sendingu Stöð 2 Sport frá leiknum…Þetta er erfitt. Þú ert nagandi neglurnar í níu­tíu mínútur og getur ekkert gert. Ert frekar hjálpar­vana.“

Ljóst er að færri munu komast að en vilja á úr­slita­leik Víkings Reykja­víkur og Breiða­bliks á sunnu­daginn kemur þar sem að Víkingum nægir jafn­tefli til þess að verja Ís­lands­meistara­titilinn. Sigri Breiða­blik hins vegar er titillinn á leið í Kópa­voginn á nýjan leik.

Stemningin verður mögnuð á leiknum. Það er hægt að slá því föstu. Arnar mun fá hana beint í æð úr stúkunni.

„Ultras hópur Víkinga er stað­settur hérna við hliðina á boxinu. Það eru því­lík læti sem berast frá þeim á venju­legum leik inn í boxið. Maður greinir varla sínar eigin hugsanir vegna látanna. Ég get rétt í­myndað mér hvernig þetta verður á sunnu­daginn. Þetta verður eitt­hvað súrealískt. Að vera hérna, inni í þessu boxi, í hringiðunni og stemningunni. Verður öðru­vísi. En ég hefði klár­lega miklu frekar viljað vera á hliðar­línunni.“

Leikurinn á sunnu­daginn verður fimmti leikurinn á yfir­standandi tíma­bili þar sem að Arnar tekur út leik­bann. Hann er ekki stoltur af þeirri stað­reynd en finnur þó huggun í því að lið hans er í góðum höndum hjá að­stoðar­þjálfaranum Sölva Geir Otte­sen og restinni af þjálfara­t­eyminu.

Sölvi Geir Ottesen stýrir Víkingum í fjarveru Arnars GunnlaugssonarVísir/Anton Brink

„Hann hefur fengið eld­skírn í sumar og undan­farin ár. Sölvi er með sterka nær­veru á hliðar­línunni. Ég treysti honum full­kom­lega. Þá er liðið okkar líka vel rútínerað í strúktúr. Annars hefðum við aldrei geta gert það sem við höfum verið að gera í sumar. Að vera berjast á öllum víg­stöðvum og spilað á svona mörgum leik­mönnum okkar leik­kerfi en samt haldið dampi. Við erum með plan A, B, C, D og örugg­lega fram í Z varðandi það hvað gerist í mis­munandi að­stæðum. Þeir vita alveg hvernig ég hugsa og hafa hingað til gert allt rétt.“

Grunlaus um spjaldastöðu sína

Í inn­slaginu hér fyrir neðan fer Arnar yfir við­brögð sín við banninu sem hann fékk eftir að hafa sankað að sér fjórum gulum spjöldum. Það síðasta, sem stað­festi leik­bann hans í úr­slita­leiknum, fékk Arnar fyrir að hafa fagnað sigur­marki Víkinga gegn ÍA í síðustu um­ferð af mikilli inn­lifun.

Arnar sjálfur hafði ekki hug­mynd um að hann væri á hættu­svæði hvað gulu spjöldin varðar en var þó með stöðu leik­manna sinna á hreinu.

„Fyrstu við­brögð voru á þá leið að hugsa með sjálfum sér hvað maður væri vit­laus og hvernig þetta hafi farið fram hjá manni. Að vera ekki með töluna á hreinu. Svo fór ég að hugsa af hverju þurfti ég að vera fagna. Sem betur fer var Stúkan á dag­skrá Stöðvar 2 Sport eftir að ég fékk fréttirnar. Þar sá ég fagnaðar­lætin og hversu inni­legt þetta var. Þá lét maður þetta slæda.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×