Handbolti

Óðinn skoraði mark um­ferðarinnar með Óðinsskotinu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Óðinn Þór Ríkharðsson hefur skorað grimmt í Evrópudeildinni undanfarin ár.
Óðinn Þór Ríkharðsson hefur skorað grimmt í Evrópudeildinni undanfarin ár. getty/Jan-Philipp Burmann

Að mati EHF skoraði Óðinn Þór Ríkharðsson mark umferðarinnar í Evrópudeildinni í handbolta. Hann skoraði það með sínu einkennisskoti.

Óðinn og félagar í Kadetten Schaffhausen gerðu góða ferð til Frakklands og unnu fjögurra marka sigur á Limoges Handball, 27-31, í C-riðli Evrópudeildarinnar í gær.

Óðinn var markahæstur í liði Kadetten með átta mörk úr níu skotum. Eitt markanna var öðru laglegra.

Á 10. mínútu kastaði Spánverjinn Juan Castro Álvarez boltanum inn í vítateig Limoges. Óðinn stökk inn í teiginn, greip boltann og skoraði með skoti fyrir aftan bak, eins og hann gerir svo oft.

EHF valdi mark Óðins mark 3. umferðarinnar í Evrópudeildinni en fimm flottustu mörkin má sjá hér fyrir neðan.

Kadetten er í 2. sæti C-riðils með fjögur stig eftir þrjá leiki. Óðinn hefur skorað sautján mörk í fyrstu þremur leikjunum, eða 5,7 mörk að meðaltali í leik.

Á síðasta tímabili skoraði Óðinn 71 mark í Evrópudeildinni og var 9. markahæsti leikmaður hennar. Tímabilið þar á undan, 2022-23, var Óðinn markakóngur Evrópudeildarinnar með 110 mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×