Skoðun

Ó­missandi fjár­sjóður!

Jasmina Vajzović Crnac skrifar

Ómissandi fjársjóður! Kvenréttindadagurinn mikli er í dag og tilvalið að ræða stöðu innflytjendakvenna, kvenna af erlendum uppruna. 

Konur af erlendum uppruna í atvinnulífinu á Íslandi eiga betra skilið. Þær eru mikilvægur hluti af íslenskum vinnumarkaði. Þær koma frá fjölbreyttum menningarheimum og hafa mismunandi bakgrunn, en eiga það sameiginlegt að hafa flutt til Íslands í leit að betri tækifærum og lífsgæðum. Þrátt fyrir að margar konur af erlendum uppruna hafi náð að skapa sér gott líf á Íslandi, standa þær frammi fyrir ýmsum áskorunum á vinnumarkaði, ekki síst hindrunum sem eru margar. 

Tungumálahindranir eru oft stór áskorun sem getur haft áhrif á aðgengi að störfum og starfsþróun. Margar konur af erlendum uppruna eru yfirmenntaðar fyrir þau störf sem þær taka að sér, sem getur haft áhrif á sjálfsmynd þeirra og starfsánægju. Konur af erlendum uppruna vinna lengri vinnudag en innfæddar konur og eru oft á miklu lægri launum en aðrar konur. 

Atvinnumöguleikar kvenna af erlendum uppruna eru oft takmarkaðir við láglaunastörf í þjónustugeiranum, svo sem í hreingerningu, umönnun og veitingarekstri. Þetta getur leitt til þess að þær upplifi minni starfsöryggi og minni möguleika á starfsþróun. Þó hafa sumar konur af erlendum uppruna náð að brjótast út úr þessum ramma og skapa sér farsælan starfsferil í ýmsum greinum, en það er dropi í hafi og alls ekki nóg. 

Félagslegur stuðningur og tengslanet eru mikilvæg fyrir konur af erlendum uppruna til að ná árangri á vinnumarkaði. Með auknum stuðningi og betra aðgengi að endurmenntun og starfsþjálfun geta þessar konur nýtt hæfileika sína til fulls og lagt enn meira af mörkum til íslensks samfélags. Við þurfum líka að veita þeim tækifæri til að byggja upp tengslanet hér á landi. 

Konur af erlendum uppruna á Íslandi eru ómissandi hluti af vinnumarkaðinum. Þær hafa náð að leggja mikið af mörkum til samfélagsins. Við gætum ekki rekið ákveðna þjónustu ef það væri ekki fyrir þær. Með aukinni vitund og stuðningi getur samfélagið hjálpað þessum konum að blómstra og nýta hæfileika sína til fulls. 

Kerfi, samfélag, fyrirtæki og sumt fólk gefa stöðugt þau skilaboð að konur af erlendum uppruna séu ekki nóg. Þær séu ekki nógu góðar fyrir hin og þessi störf. Staðreyndin er aftur á móti sú að þær eru of hæfar, of klárar og of góðar fyrir íslenskt samfélag. Þetta er mannauður sem er vannýttur. Fjársjóður sem er ekki farið vel með. Til hamingju með kvenréttindadaginn, kæru konur! 

Höfundur er kona og innflytjandi.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×