Innlent

Gert ráð fyrir að­komu ríkisins til við­bótar við brúargjöld

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Margir eru óþreyjufullir eftir nýrri brú en sú gamla er löngu sprungin, ef svo má að orði komast.
Margir eru óþreyjufullir eftir nýrri brú en sú gamla er löngu sprungin, ef svo má að orði komast. Vísir/Vilhelm

Í bandorminum svokallaða, tekjufrumvarpi fjármálaráðherra fyrir næsta ár, er gert ráð fyrir að ríkissjóður gæti þurft að standa undir allt að helmingi kostnaðar við byggingu Ölfusárbrúar.

Áður hafði verið gert ráð fyrir að gjöld af akstri um brúna stæði undir öllum kostnaðinum.

Ríkisábyrgðarsjóður taldi forsendur sem gefnar voru fyrir því ekki ganga upp. 

Nú kemur fram í bandorminum að ríkissjóður fái heimild til að „undirgangast skuldbindingar fyrir hönd ríkissjóðs vegna útboðs á hringvegi norðaustan Selfoss og brú yfir Ölfusá gegn því að gjaldtaka af umferð um hana standi undir kostnaði í heild eða að lágmarki 50%“.

Ennfremur segir að standi gjaldtaka ekki undir öllum kostnaði „sé heimilt að ákvarða framlög í formi skuggagjalda úr ríkissjóði, enda sé gert ráð fyrir útgjöldunum í samgönguáætlun og fjárheimilda aflað fyrir þeim í fjármálaáætlun og fjárlögum“. 

Í greinargerð með frumvarpinu eru þessi „skuggagjöld“ útskýrð sem framlag úr ríkissjóði sem myndi taka mið af þeirri umferð sem upp á vantar til að tryggja fjárhagslega sjálfbærni. Heimild þessi rennur út að sex mánuðum liðnum, verði hún ekki nýtt innan þess tíma.

Í greinargerðinni segir ennfremur að ráðist sé í þessar breytingar til að bregðast við þeirri stöðu sem upp sé komin vegna brúarsmíðinnar. Tryggja þurfi að hægt verði að mæta mögulegum umframkostnaði standi veggjöld ekki undir verkefninu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×