Skoðun

Hélst þú upp á krabba­meinið?

Áslaug Eiríksdóttir skrifar

Fyrr í þessari viku var bleiki dagurinn haldinn af Krabbameinsfélaginu. Víða á vinnustöðum voru veggir og fólk skreytt með bleiku hátt og lágt, og eflaust hafa ófáir gætt sér á bleikum veitingum.

Ég klikkaði á þessu á síðasta ári, gleymdi að mæta í bleikum fötum. Samstarfskona mín hafði stuttu áður greinst með brjóstakrabbamein og mér fannst alveg glatað að vera svona gersneydd stuðningi við hana, úr því ég gat ekki munað að koma í einhverju bleiku. Ég setti saman playlista með P!nk og sendi “smá bleikt út í daginn” á vinnuspjallið. Málinu reddað. Eða hvað?

Núna, ári seinna, var dagurinn með öðru sniði. Á bleika deginum í ár var ég ekki að gæða mér á veitingum með vinnufélögunum, heldur fór ég á Landsspítalann og þáði heilbrigðisþjónustu sem er nauðsynleg minni meðferð við… jú einmitt: Brjóstakrabbameini. Fyrir vikið sé ég þennan dag í allt öðru ljósi en í fyrra. Ég dauðskammast mín fyrir taktleysið á vinnuspjallinu og sé núna að mistök mín voru ekki fólgin í að klikka á klæðaburðinum, heldur í að halda að kaffisamsæti á skrifstofu í Kópavoginum hefði í sjálfu sér eitthvað með hennar bata að gera. Ég held ég hafi ekki einu sinni spurt hana hvernig henni liði eftir síðustu lyfjagjöf, bara spilað "Get the party started" og haldið áfram með daginn.

En til hvers er fólk þá að klæða sig í bleikt á þessum degi? Til að “sýna stuðning”? Í hverju er sá stuðningur fólginn?

Jú, hann getur verið í formi fræðslu, eins og að dreifa kynningarefni um helstu einkenni. Eða hvetja starfsfólk til að fara í skimun, og minna á réttinn til að sinna því á vinnutíma. Hvernig var þetta á þínum vinnustað í ár?

Stuðningurinn getur líka verið fjárhagslegur stuðningur við rannsóknir, hagsmunasamtök og stuðningsnet þeirra sem krabbamein snertir. Krabbameinsfélagið, sem stendur fyrir bleikum október og bleikum degi, sinnir hvoru tveggja. Þegar ég sé fólk með bleika slaufu í barminum sendi ég þeim í huganum þökk fyrir að gera Krabbameinsfélaginu kleift að vera með viðtalsþjónustu sem við maðurinn minn höfum nýtt okkur sitt á hvað frá fyrsta degi veikinda. Var stuðningur þinn eða þíns fyrirtækis á þessu formi í ár?

En hafandi fengið krabbamein sjálf, veit ég að einn mikilvægasti stuðningurinn er þegar fólk er til staðar fyrir þau sem eru veik, aðstandendur og syrgjandi.

Eftir bleika daginn í ár er það einmitt þessi tegund stuðnings sem ég óttast að hafi týnst innan um bleikar servíettur og Instagram-vænar myndir af starfsmannahópum.

Það er ábyrgðarhlutverk að koma með umræðuefni eins og krabbamein inn á vinnustaði og í skóla. Ég vona að þar sem það á við (hint: allsstaðar) sé fólk meðvitað um þau sem gætu þurft á umhyggju að halda á svona degi af því að þau eiga um sárt að binda vegna krabbameins sem er í lífi þeirra.

Mér verður hugsað til þeirra sem hafa misst aðstandanda og mættu í skóla eða vinnu sem hefur sett bleikan ljóskastara á krabbameinið sem tók ástvin þeirra. Einnig þeirra sem hafa skilið veikindin eftir í fortíð sem virðist fjarlæg en fá árlega bleikmálaða áminningu um eitt erfiðasta tímabil ævi sinnar. Um þau sem voru heima frá vinnu, í veikindaleyfi vegna krabbameinsmeðferðar. Um þau sem eiga systur sem greindist í síðasta mánuði, þau sem eiga maka sem var að greinast aftur eða mömmu sem lést fyrir fimm árum.

Rifjaðu upp hvernig þetta var á þínum vinnustað eða skóla, og hugsaðu til þeirra sem þú veist að hafa haft náin kynni af krabbameini í sínu lífi. Fengu þau ekki örugglega stuðning á bleika daginn? Eða létu þau sig hverfa úr samkvæminu? Unnu heima? Fóru heim með illt í maganum?

Það er auðvitað bara fallegt að lyfta samstöðunni upp á yfirborðið og búa til bleikt faðmlag í samfélaginu. Bleikur október og bleikur dagur er mjög mikilvægur til að halda umræðunni opinni og afla fjár til málefnisins. En ef bleika faðmlagið okkar nær ekki til þeirra sem við erum að státa okkur af að styðja, þá verða bleiku fötin einkennisbúningur sjálfhverfu og dyggðarþvottar.

Ég vona að þér hafi gengið betur í ár en mér gekk í fyrra.

Ég er búin að eyða þessum P!nk playlista.




Skoðun

Sjá meira


×