Fótbolti

Stór­kost­legt mark Selmu í tapi fyrir Banda­ríkjunum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Selma Sól Magnúsdóttir fagnar marki sínu gegn Bandaríkjunum í nótt.
Selma Sól Magnúsdóttir fagnar marki sínu gegn Bandaríkjunum í nótt. getty/Adam Davis

Íslenska kvennalandsliðið í fótbolta tapaði fyrir Ólympíumeisturum Bandaríkjanna, 3-1, í fyrri vináttuleik þjóðanna í nótt. Selma Sól Magnúsdóttir skoraði mark Íslands með frábæru skoti fyrir utan vítateig. Leikið var í Austin, Texas.

Bandaríkin náðu forystunni sex mínútum fyrir hálfleik þegar Alyssa Thompson skoraði með skoti í slá og inn. Þetta var fyrsta landsliðsmark hennar.

Bandaríska liðið fór með eins marks forystu til búningsherbergja en það íslenska svaraði vel fyrir sig eftir hlé.

Á 56. mínútu jafnaði Selma metin með glæsilegu marki. Eftir lipran samleik íslenska liðsins lék Selma á varnarmann bandaríska liðsins og smellti boltanum með vinstri fæti í fjærhornið.

Íslenska liðið spilaði vel í seinni hálfleik en undir lok leiksins komu varamenn bandaríska liðsins því til bjargar.

Þegar fimm mínútur voru til leiksloka átti Jane Campbell fyrirgjöf frá hægri inn á vítateig Íslands. Þar var Jaedyn Shaw fyrst í boltann og skallaði hann framhjá Telmu Ívarsdóttur.

Fjórum mínútum síðar gulltryggði Sophia Smith svo sigur Bandaríkjanna með góðu skoti í fjærhornið. Lokatölur 3-1, Bandaríkjunum í vil.

Liðin mætast aftur í Nashville, Tenn­essee á sunnudagskvöldið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×