Fótbolti

Mourinho: „Dómarinn var al­gjör­lega ó­trú­legur“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
José Mourinho forviða eftir að Clement Turpin rak hann út af.
José Mourinho forviða eftir að Clement Turpin rak hann út af. getty/Seskim Photo

José Mourinho stal sviðljósinu þegar lið hans, Fenerbahce, gerði 1-1 jafntefli við gamla liðið hans, Manchester United, í Evrópudeildinni í gær. Hann var rekinn af velli og var kaldhæðinn í svörum er hann var spurður út í dómarann Clement Turpin eftir leik.

Christian Eriksen kom United yfir í leiknum í Istanbúl í gær en Youssef En-Nesyri jafnaði fyrir Fenerbahce. Mourinho fékk að líta rauða spjaldið á 58. mínútu þegar hann mótmælti því að lið hans hefði ekki fengið vítaspyrnu.

„Ég horfði á atvikið. Ég vil ekki tala um það,“ sagði Mourinho í viðtali eftir leikinn í gær.

„Hann sagði mér svolítið ótrúlegt. Á sama tíma gat hann séð það sem gekk á í vítateignum og fylgst með mér á hliðarlínunni. Ég hrósaði honum því hann er algjörlega ótrúlegur. Hann var með annað augað á vítaatvikinu og hitt á mér. Það er útskýringin sem hann gaf mér. Þess vegna er hann einn af bestu dómurum í heimi.“

Fenerbahce er í 14. sæti Evrópudeildarinnar með fimm stig. United er aftur á móti í 21. sætinu og hefur ekki enn unnið leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×