Enski boltinn

Shearer hefði stórslasað sig við að reyna það sem Haaland gerði

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Erling Haaland fagnar þessu ótrúlega marki sínu sem hann skoraði fyrir Manchester City á móti Spörtu Prag í Meistaradeildinni í vikunni.
Erling Haaland fagnar þessu ótrúlega marki sínu sem hann skoraði fyrir Manchester City á móti Spörtu Prag í Meistaradeildinni í vikunni. Getty/Robbie Jay Barratt

Gary Lineker, Alan Shearer og Micah Richards ræddu eins og fleiri magnað mark Erling Braut Haaland í Meistaradeildinni í vikunni.

Annað af mörkum Haaland fyrir Manchester City á móti Spörtu Prag skoraði sá norski með skoti aftur fyrir bak með sannkallaðri háloftahælspyrnu.

Það var margt sem þótti varla mannlegt við þetta skot Norðmannsins. Hvernig hann náði krafti í skotið og hvernig hann náði að taka hælspyrnu svo hátt uppi voru tvær af þessum spurningum sem fótboltasérfræðingarnir veltu fyrir sér.

„Við verðum að byrja á því að ræða þetta mark hjá Haaland. Ég hef aldrei séð svona áður. Ég meina þetta var stórbrotið,“ sagði Gary Lineker í hlaðvarpsþætti sínum, The Best is Football. Hann skoraði ófá mörkin á ferli sínum alveg eins og Alan Shearer, markahæsti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar frá upphafi.

Shearer sjálfur var á því að hann hefði stórslasað sig við að reyna það sem Haaland gerði þarna.

„Ég hefði tognað á nára, á hné eða aftan í læri. Eitthvað hefði gefið sig hefði ég reynt þetta,“ sagði Alan Shearer.

„Réttara sagt ég hefði aldrei náð þessu. Þetta er svo magnað mark. Þvílíkt mark hjá honum þetta var alveg ótrúlegt,“ sagði Shearer.

„Hann minnti mig á Ibrahimovic,“ sagði Micah Richards og líkt tilþrifum Haaland við þau hjá Svíanum Zlatan Ibrahimovic sem skoraði mörg mörk á ferlinum.

„Ég var einmitt að hugsa það sama,“ sagði Lineker.

„Það er magnað að sjá hvernig þeir gert hreyft á sér skrokkinn verandi svona stórir menn,“ sagði Richards.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×