Erlent

Óttast um­sátur og of­beldi við kjör­staði

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Friðjón Friðjónsson segir söguna sýna að Trump fái oft meira upp úr kössunum en kannanir gefi til kynna.
Friðjón Friðjónsson segir söguna sýna að Trump fái oft meira upp úr kössunum en kannanir gefi til kynna. Getty/Vísir/Vilhelm

Allt er í járnum í Bandaríkjunum nú þegar rúm vika er í forsetakosningar þar ytra. Borgarfulltrúi segir söguna sýna að Trump fái oft meira fylgi en kannanir gefi til kynna. Óttast er að umsátursástand myndist við kjörstaði vegna ólgu í tengslum við kosningarnar.

Kamala Harris og Donald Trump mælast enn hnífjöfn þegar einungis rúm vika er í forsetakosningar vestanhafs. Friðjón Friðjónsson, borgarfulltrúi og áhugamaður um bandarísk stjórnmál segir allt í járnum þó erfitt sé að taka mark á könnunum þar ytra.

„Traust fólks á könnunum er eins og það er. Trump var undirmældur herfilega árið 2016 og 2020, það er að segja hann fékk miklu fleiri atkvæði hlutfallslega en búist var við.“

Sagði Friðjón Friðjónsson og tekur fram að fólk sé mögulega tregara til að viðurkenna í könnunum að það ætli að kjósa Trump.

Demókratar stressaðir

„Það eru margir Demókratar mjög stressaðir vegna þess að Trump hefur einmitt fengið meira fylgi en hann hefur fengið í könnunum.“

Von sé á langri kosninganótt þann fimmta nóvember og bendir allt til þess að það muni venju samkvæmt taka marga daga að telja atkvæði.

„Svo sjáum við alls konar fréttir um að menn séu að búast við lögbönnum og lögsóknum og svo framvegis. Menn eru byrjaðir að draga niðurstöður kosninganna í efa nú þegar.“

Ofbeldi og umsátur

Mikil ólga er í tengslum við kosningarnar og segir Friðjón því miður margt benda til þess að umsátur og ofbeldi muni eiga sér stað við kjörstaði.

„Og talningarstaði og svo framvegis. Svona svipað umsátursástand og varð 2020.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×