Þetta segir Áslaug Arna um fartölvu sem hún skildi eftir á Port 9 bar í vikunni, en ljósmynd af tölvunni hefur fengið heilmikla dreifingu á samfélagsmiðlum og miklar umræður skapast um meint ábyrgðarleysi ráðherrans.
Ekki aðalvinnutölvan
Áslaug segir að tölvan hafi ekki verið hefðbundna vinnutölvan hennar heldur „svona spjaldtölva.“ Hún hafi ekki þurft að tilkynna um öryggisatvik eða neitt slíkt.
Hún segir að starfsmaðurinn hafi tekið tölvuna frá strax og geymt hana þar til morguninn eftir.
„Ég stoppaði þarna um kvöldmatarleytið í stutta stund í vikunni ásamt vinum og var að vinna aðeins í tölvunni og lagði hana frá mér. Ég sótti hana svo morguninn eftir og þá hafði starfsmaður Port 9 birt þessa mynd,“ segir Áslaug.
Ekkert nýtt að það skapist sögur um hana
Hún segir að það sé alltaf reynt að búa til sögur um eitthvað svona sem gerist og hún sé alveg vön því. „En það er nú ekkert nýtt fyrir mér að það skapist alls konar sögur um mann, sannar og ósannar,“ segir hún.
„En maður er nú bara mannlegur og ég lagði hana frá mér eftir að ég hafði verið að vinna. Ég var að hitta nokkra vini mína sem maður hefur ekki séð lengi og var að vinna í tölvunni þarna um kvöldmatarleytið. Ég hringdi svo bara um morguninn og sótti hana og þetta var ekki meira vesen en það,“ segir Áslaug.