Skoðun

Við lifum lengur – Já­kvæð á­skorun fyrir líf­eyris­sjóði

Magnús Helgason skrifar

Lífeyrissjóður er í senn einfaldur og flókinn 

Rekstur lífeyrissjóðs er í senn einfaldur og flókinn. Einfaldur í þeim skilningi að hann tekur á móti iðgjöldum, ávaxtar þau og greiðir út lífeyri til sjóðfélaga. Hann er þó flókinn að því leyti að ýmislegt getur gerst á þeim langa tíma frá því að sjóðfélagar byrja að greiða til hans iðgjöld og þangað til þeir hefja töku lífeyris. Algengt er að sjóðfélagar greiði fyrst í sjóðinn um tvítugt og hefji töku lífeyris um 67 ára aldur. Miðað við lífslíkur geta sjóðfélagar vænst þess að vera á lífeyri í um 20 ár. Þetta getur því verið tæplega 70 ára samband. Sagan segir okkur að á svo löngu tímabili getur ýmislegt gerst svo sem uppgangur í efnahagskerfum heims, efnahagsáföll, stríð, tækniframfarir, framfarir í læknavísindum eða hvað annað sem framtíðin færir okkur. Það er því mikilli óvissu háð hver endanleg fjárhæð lífeyris verður þegar að þeim tímamótum kemur í okkar lífi að við hefjum töku lífeyris. 

Það er enginn aðili, ekki einu sinni ríkið, nægjanlega öflugur til að tryggja að allar meginforsendur í rekstri lífeyrissjóðs haldist óbreyttar um áratuga skeið. Sjóðfélagar bera þess vegna áhættuna á ávöxtun eigna og einnig svokallaða lýðfræðilega áhættu. Lýðfræðileg áhætta snýr að stærstum hluta að því hversu lengi við megum vænta þess að lifa og þar af leiðandi í hversu mörg ár við megum gera ráð fyrir að fá greiðslur úr lífeyrissjóðum. 

Blessunarlega lifum við lengur 

Undanfarna áratugi, jafnvel árhundruð, hafa orðið stórkostlegar framfarir á flestum sviðum okkar lífs. Sem dæmi má nefna efnahagslegar framfarir, tækniframfarir, framfarir í læknavísindum, stórbættan húsakost, betra fæði fyrir þorra fólks, framfarir í öryggismálum og framfarir í lifnaðarháttum. Allar þessar framfarir hafa gert það að verkum að við lifum lengur en áður. 

Fyrir liggja til að mynda gögn frá Danmörku sem ná aftur til ársins 1840 sem sýna hvernig lífslíkur hafa aukist gríðarlega mikið, nánast á sama hraða allan tímann. Undirritaður hefur jafnframt spurt sig hvort þetta muni halda áfram næstu áratugi eða árhundruð. Munu næstu kynslóðir ávallt lifa lengur en fyrri kynslóðir og mun það gerast á sama hraða og hefur verið hingað til? Hvað sem því líður er þetta ánægjuleg þróun og allra best er ef við lifum vel og lengi við góða heilsu.

Góðar fréttir en áskorun þó

Þetta er ánægjuleg þróun og er jafnframt krefjandi áskorun fyrir lífeyrissjóði. Lífeyririnn þarf að greiða lengur til sjóðfélaga. Eins og áður segir tekur lífeyrissjóðurinn á móti iðgjöldum, ávaxtar þau og á þess vegna eignir sem eiga að standa undir réttindum sjóðfélaga. Í bókhaldi sjóðsins eru réttindi og væntar greiðslur til sjóðfélaga í framtíðinni kallaðar skuldbindingar. Þegar skuldbindingar lífeyrissjóða eru reiknaðar eru notaðar lífslíkur til að áætla hversu lengi að meðaltali lífeyrissjóðurinn mun greiða sjóðfélögum lífeyri. Fram til ársins 2021 voru notaðar lífslíkur sem reiknaðar voru út frá gögnum nokkur ár aftur í tímann, þ.e. sögulegum gögnum. Þessar lífslíkur voru notaðar til að meta stöðu lífeyrissjóða, sömu lífslíkur fyrir alla sjóðfélaga, bæði unga og aldna. Þessar lífslíkur endurspegluðu því ekki þá þróun sem átt hefur sér stað í langan tíma, að hver kynslóð er að lifa lengur en fyrri kynslóðir.

Grundavallarbreyting á forsendum um lífslíkur

Í desember 2021 samþykkti fjármála- og efnahagsráðherra nýjar forsendur um lífslíkur sem átti að nota til að reikna skuldbindingar lífeyrissjóða. Þessar nýju forsendur byggðu ekki á lífslíkum úr fortíðinni líkt og áður, heldur voru með spá um að yngri kynslóðir muni lifa lengur en þær eldri. Þessar nýju lífslíkur endurspegla þess vegna þá þróun að við erum sífellt að lifa lengur, þó mismikið eftir aldri. 

Það sem raungerðist við þessa ákvörðun fjármála- og efnahagsráðherra var að skuldbindingar lífeyrissjóða í landinu hækkuðu í einu vetfangi um nokkur hundruð milljarða. Þessi hækkun á skuldbindingum hefur líklega numið yfir 400 milljörðum króna fyrir allt lífeyrissjóðakerfið, þar af hækkuðu skuldbindingar Lífeyrissjóðs verzlunarmanna um 77 milljarða króna. Skuldbindingar vegna yngri sjóðfélaga jukust meira en skuldbindingar vegna þeirra sem eldri eru vegna þess að forsendurnar gera ráð fyrir að þeir yngri lifi lengur. Ef engar mótvægisaðgerðir yrðu framkvæmdar vegna þessarar grundvallarbreytingar á forsendum um lífslíkur myndi það bitna á eldri sjóðfélögum, því þeir yngri fengju sinn lífeyri greiddan lengur en þeir eldri og fyrst í lok árs 2021 var gert ráð fyrir því í bókum lífeyrissjóða. Aldrei hefur ein breyting á forsendum haft jafnmikil fjárhagsleg áhrif á skuldbindingar lífeyrissjóða hér á landi en sú sem hér um ræðir. 

Sanngjarnar mótvægisaðgerðir koma í veg fyrir flutning fjármuna á milli kynslóða 

Við hjá Lífeyrissjóði verzlunarmanna hófum undirbúning á viðbrögðum við þessum breytingum árið 2020 í samstarfi við tryggingastærðfræðing sjóðsins og lögfræðinga. Niðurstaðan var sú að málefnalegt og sanngjarnt væri að ráðast í mótvægisaðgerðir. Var það gert með því að reikna skuldbindingar vegna hvers árgangs með gömlu lífslíkunum og nýju lífslíkunum og að hlutfall hvers árgangs eftir breytinguna, sem fjármála- og efnahagsráðherra samþykkti í desember 2021, yrði það sama og fyrir breytinguna. Þetta þýddi að verðmæti réttinda sjóðfélaga væru eins fyrir og eftir breytinguna. 

Mótvægisaðgerðirnar snerust því um að allir sjóðfélagar væru eins settir fyrir og eftir breytingu á forsendum um lífslíkur. Góð staða sjóðsins á þeim tíma gerði það reyndar að verkum að á sama tíma var hægt að hækka réttindi sjóðfélaga jafnt yfir alla sem þýddi að þeir einstaklingar sem voru á lífeyri fengu hækkun á sínum lífeyri en ekki lækkun. Hægt var að verja viðkvæmasta hópinn, þ.e. þá sem komnir voru á lífeyri. 

Án mótvægisaðgerða hefði þessi grundvallarbreyting á forsendum um lífslíkur bitnað á eldri sjóðfélögum í formi mögulegra skerðinga í framtíðinni, því nú er gert ráð fyrir lífeyrisgreiðslum yfir lengri tíma til þeirra yngri. Þessi breyting á lýðfræðilegum forsendum gáfu því tilefni til að bregðast við með þeim hætti að áhrifin væru ólík eftir hópum sjóðfélaga. 

Mótvægisaðgerðirnar voru framkvæmdar í ársbyrjun 2023, ári eftir að nýjar lífslíkutöflur voru innleiddar. Það var mat sérfræðinga, stjórnar og stjórnenda sjóðsins að þarna væri sanngjörn, málefnaleg og lögleg leið farin svo ekki myndu fjárhæðir færast til á milli kynslóða, frá þeim eldri til þeirra yngri. 

Sjóðfélagi ósáttur með hinar sanngjörnu mótvægisaðgerðir

Einn sjóðfélagi var ósáttur við útfærslu mótvægisaðgerðanna og höfðaði dómsmál á hendur sjóðnum til ógildingar og féllst héraðsdómur á röksemdir sjóðfélagans. Lífeyrissjóður verzlunarmanna taldi fullt tilefni til að áfrýja dómi héraðsdóms til Hæstaréttar og verður málið flutt 30. október næstkomandi. Ekki er loku fyrir það skotið að dómurinn verði fordæmisgefandi fyrir aðra lífeyrissjóði. Ef Hæstiréttur staðfestir dóm héraðsdóms munu mótvægisaðgerðirnar verða teknar til baka sem þýðir að fjárhæðir í formi áunnina réttinda færast á milli kynslóða, frá þeim eldri til þeirra yngri. Ítilfelli Lífeyrissjóðs verzlunarmanna eru þetta hið minnsta 77 milljarðar króna. Það sem gerist jafnframt er að það verður líklegra en ella að skerða þurfi réttindi sjóðfélaga sem hefur áhrif til lækkunar á lífeyrisgreiðslum til sjóðfélaga. 

Lífeyrissjóðurinn hefur enga hagsmuni aðra en að tryggja réttlæti og jafnræði meðal sjóðfélaga sinna. Við höfum fulla trú á því að sú aðferð sjóðsins til að gæta jafnræðis milli sjóðfélaga við grundvallarforsendubreytingu vegna hækkandi lífaldurs fái staðfestingu Hæstaréttar. Okkar eina markmið er að vinna að hag allra sjóðfélaga og að fyllsta réttlætis sé gætt. 

Höfundur er forstöðumaður áhættustýringar hjá Lífeyrissjóði verzlunarmanna.




Skoðun

Sjá meira


×