Skoðun

Ungt fólk mótar fram­tíð Norður­landa

Bryndís Haraldsdóttir skrifar

Norðurlöndin standa frammi fyrir breyttum og viðsjárverðum veruleika sem snertir samfélög okkar á mörgum sviðum. Þrátt fyrir ógnanir í heiminum í dag höfum við byggt upp sterkt samstarf og sameiginlegan vilja til að standa vörð um sameiginleg gildi okkar, eins og lýðræði, frelsi og jafnrétti. Ungt fólk gegnir lykilhlutverki í þessari vegferð – þeirra rödd og sýn á framtíðina eru leiðarljós sem munu tryggja að norræna samstaðan haldi áfram að styrkjast og að grunnstoðir samfélaga okkar verði öruggar fyrir komandi kynslóðir.

Á Norðurlandaráðsþingi ungs fólks sem fram fór um helgina komu saman ungir fulltrúar frá öllum Norðurlöndum og samþykktu tillögur sem fjölluðu meðal annars um öryggis- og varnarmál, umhverfismál, sjálfbærni og eflingu norræns samstarfs. Það er augljóst að ungt fólk brennur fyrir fjölbreyttum málefnum og sýnir þannig vilja til að taka virkan þátt í að móta framtíðina. Áhugi þeirra og eldmóður spannar breitt svið sem endurspeglar þau helstu málefni sem standa Norðurlöndunum næst.

Ég er einstaklega þakklát fyrir að hafa átt aðkomu að og fengið að kynnast starfi Norðurlandaráðs ungs fólks á þessu starfsári mínu sem forseti Norðurlandaráðs. Það er auðvelt að finna von og kraft þegar ungt fólk leiðir samtalið. Á þessum síðustu dögum í mínu embætti sem forseti Norðurlandaráðs mun ég standa þétt að baki því að tryggja að rödd ungs fólks fái að heyrast hátt og skýrt – því þau munu móta Norðurlönd framtíðarinnar með hugsjón og dugnaði.

Saman getum við skapað sterka og bjarta framtíð fyrir norræn samfélög með því að hlúa að sameiginlegum gildum og virkja kraft unga fólksins í hverju skrefi.

Höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins og forseti Norðurlandaráðs.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×