Ómar Ingi þakkar fyrir sig á Twitter, nú þegar hann segir skilið við félagið sem hann hefur tilheyrt í um þrjá áratugi. „Takk HK fyrir síðustu um það bil 30 árin,“ skrifar þjálfarinn.
Takk HK fyrir síðustu um það bil 30 árin pic.twitter.com/IWirWWtFQP
— Ómar Ingi (@OmarIngiGud) October 29, 2024
Ómar Ingi hafði sinnt þjálfun hjá HK nær samfellt frá árinu 2000 þegar hann var ráðinn aðalþjálfari meistaraflokks karla árið 2022. Hann hafði verið aðstoðarþjálfari í skamman tíma en tók svo við sem aðalþjálfari þegar Brynjar Björn Gunnarsson var ráðinn til Örgryte í Svíþjóð í maí þetta ár.
Ómar Ingi stýrði HK upp úr Lengjudeildinni í fyrstu tilraun og hélt svo liðinu þar í fyrra. Liðið féll hins vegar niður um deild um helgina, á verri markatölu en Vestri.
„Stjórn knattspyrnudeildar þakkar Ómari Inga fyrir góðar stundir í Kórnum og ómetanlegt framlag til félagsins undanfarin ár. Ómar sem er svo sannarlega einn af dáðardrengjum HK hefur í gegnum árin unnið gífurlega gott starf og komið náið að uppgangi knattspyrnudeildar HK,“ segir í tilkynningu HK.
HK-ingar hafa nú hafið leit að eftirmanni Ómars.