Fótbolti

Mourinho meiddist á æfingu þegar leik­maður Fenerbahçe felldi hann

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Þrátt fyrir að vera orðinn 61 árs gamall tekur Mourinho enn virkan þátt í æfingum Fenerbahce.
Þrátt fyrir að vera orðinn 61 árs gamall tekur Mourinho enn virkan þátt í æfingum Fenerbahce. Saycan Sayim/ dia images via Getty Images

Jose Mourinho er enn að læra hvernig best sé að stýra æfingu þrátt fyrir að hafa starfað sem knattspyrnuþjálfari í rúm tuttugu ár. Hann varð fyrir meiðslum og haltraði af æfingu Fenerbahçe í dag.

Mourinho tók við tyrkneska félaginu í sumar, hann hefur notið mikilla vinsælda og tekið virkan þátt í starfi félagsins, þar með talið æfingum liðsins.

Hann þurfti hins vegar að hætta snemma á æfingu í dag eftir að hafa verið tæklaður aftan frá af Ismail Yuksek og haltraði af velli með aðstoð tveggja þjálfara.

Mourinho birti myndband af atvikinu á Instagram, sem má sjá hér fyrir neðan, og sagði þetta „lexíu fyrir alla unga þjálfara. Aldrei klæðast sama lit og leikmennirnir… Þeir gætu óvart gefið boltann á þig… eða sparkað þig niður aftan frá.“

Fenerbahce er sem stendur í þriðja sæti tyrknesku úrvalsdeildarinnar, átta stigum á eftir Galatasaray en með leik til góða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×