Viðskipti innlent

Hor­yn nýr for­stjóri kísil­verk­smiðjunnar á Bakka

Kjartan Kjartansson skrifar
Forstjóraskipti verða í kísilveri PCC á Bakka um áramótin.
Forstjóraskipti verða í kísilveri PCC á Bakka um áramótin. Vísir/Vilhelm

Kísilverksmiðja PCC á Bakka hefur ráðið Tomasz Jan Horyn sem forstjóra fyrirtækisins. Horyn, sem var áður rekstrarstjóri verksmiðjunnar, tekur við af Gesti Péturssyni sem lætur af störfum um áramótin til þess að stýra nýrri Umhverfis- og orkustofnun.

Í tilkynningu frá PCC er sagt að Horyn sé öllum hnútum kunnugur í bæði verksmiðjunni og iðnaðinum í heild eftir fimmtán ára starf í þungaiðnaði. Hann hafi verið rekstrarstjóri á Bakka undanfarin fimm ár.

Honum til fulltingis verður Andri Dan Traustason aðstoðarforstjóri. Andri mun gegna því hlutverki samhliða áframhaldandi störfum sem fjármálastjóri PCC á Bakka. Hann hefur starfað fyrir fyrirtækið frá árinu 2018.

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, skipaði Gest Pétursson forstjóra Umhverfis- og orkustofnunar í september. Sú stofnun er ný og tekur við starfsemi Orkustofnunar og hluta af starfsemi Umhverfisstofnunar frá og með næsta ári.

Gestur hefur verið forstjóri PCC á Bakka frá 2022. Áður starfaði hann meðal annars sem framkvæmdastjóri Veitna, forstjóri Elkem Ísland og framkvæmdastjóri öryggis-, heilbrigðis- og umhverfismála hjá Elkem Ísland.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×