Enski boltinn

Man. Utd kynnir nýja stjórann til leiks

Sindri Sverrisson skrifar
Ruben Amorim hefur náð frábærum árangri sem stjóri Sporting Lissabon.
Ruben Amorim hefur náð frábærum árangri sem stjóri Sporting Lissabon. Getty/Diogo Cardoso

Enska knattspyrnufélagið Manchester United hefur nú staðfest komu portúgalska stjórans Ruben Amorim. Hann mun taka formlega við liðinu mánudaginn 11. nóvember.

Amorim hefur skrifað undir samning við United sem gildir til júní 2027, með möguleika á árs framlengingu. Hann mætir á Old Trafford þegar hann hefur lokið sínum skyldum hjá Sporting Lissabon.

United mætir Chelsea á sunnudaginn, spilar síðan við gríska liðið PAOK í Evrópudeildinni á fimmtudaginn í næstu viku og síðasti leikurinn fyrir landsleikjahlé er síðan á móti Leicester. Ruud van Nistelrooy mun stýra United í þessum leikjum áður en Amorim tekur svo til starfa.

Amorim, sem er 39 ára gamall, hefur stýrt Sporting Lissabon frá árinu 2020 og gerði liðið að portúgölskum meistara í fyrsta sinn í nítján ár. Hann vann portúgalska meistaratitilinn tvisvar með liðinu.

Sporting Lissabon tilkynnti fyrr í þessari viku að United hefði samþykkt að greiða 10 milljónir evra til að leysa Amorim undan samningi, en klásúla í samningnum gerði það kleift.

Amorim er sjötti stjórinn sem United ræður frá því að 26 ára stjórnartíð Sir Alex Ferguson lauk árið 2013. Ten Hag hafði stýrt liðinu frá sumrinu 2022 og unnið með því enska deildabikarinn fyrra tímabil sitt og enska bikarmeistaratitilinn seinna tímabilið.

Fyrsti leikur United undir stjórn Amorim verður útileikur gegn nýliðum Ipswich 24. nóvember en fyrstu heimaleikurinn verður svo við norska liðið Bodö/Glimt í Evrópudeildinni 28. nóvember.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×